Innlent

Enn er boðað til mótmæla

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/ernir
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli, þriðja daginn í röð. Það er hópurinn Jæja sem stendur fyrir mótmælunum og er krafa þeirra að boðað verði til kosninga. Jæja boðuðu einnig til mótmæla á mánudaginn en í gær var það hópurinn Beinar aðgerðir sem mótmæltu.

„Fullkomin óvissa og upplausn ríkir nú í landinu. Stjórnvöld hafa hafa sýnt okkur ítrekað getuleysi í störfum sínum og eru augljóslega óhæf til að stjórna landinu,“ segir á Facebooksíðu mótmælanna.

Þar segir að mótmælin hefjist klukkan fimm í dag, eins og síðustu daga.

Þúsundir manna komu saman á Austurvelli á mánudaginn og einnig mótmælti stór hópur í gær. Mótmælin fóru fram á Austurvelli og við skrifstofur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

„Fjölmennustu mótmæli í sögu landsins síðasta mánudag voru ekki aðeins áminning til þeirra stjórnarflokka sem nú eru um það bil að hrökklast úr valdastólum. Mótmælin eru áminning til allra stjórnmálaflokka. Áminning um að virða almennt siðferði og lýðræðislegan vilja landsmanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×