Innlent

Vigdís um ráðherraskipan: „Gengið framhjá mér í annað sinn“

Kolbeinn Tumi Daðason og Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifa
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, fylgist með mótmælunum út um glugga á Alþingishúsinu í fyrradag.
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, fylgist með mótmælunum út um glugga á Alþingishúsinu í fyrradag. Vísir/Vilhelm
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, segist afar sátt við ráðherraefni flokksins, Lilju Alfreðsdóttur. Lilja verður utanþingsráðherra í nýrri ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lagði það til á þingflokksfundi í kvöld og var tillagan samþykkt af stjórnarflokkunum.

Vigdís segir Lilju færa konu.

„En mér finnst forysta flokksins hafa gengið fram hjá mér í annað sinn,“ segir Vigdís. Fannst mörgum gengið framhjá Vigdísi við ráðherraskipan þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu ríkisstjórn árið 2013.

„En ég er að öðru leyti sátt við starf mitt sem formaður fjárlaganefndar,“ segir Vigdís.

Sigurður Ingi Jóhannsson var spurður að því af blaðamönnum í kvöld hvort til greina hefði komið að skipa Vigdísi sem ráðherra. Hann svaraði ekki spurningunni heldur vísaði til þess að tillaga Sigmundar Davíðs um Lilju hefði verði samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×