Enski boltinn

Gylfi Þór: Erum ekki byrjaðir að hugsa um næsta tímabil

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi með boltann í leik gegn Bournemouth þar sem hann skoraði auðvitað.
Gylfi með boltann í leik gegn Bournemouth þar sem hann skoraði auðvitað. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, segir að enginn á Liberty-vellinum sé byrjaður að spá í næstu leiktíð þó liðið sé við það að sleppa við fall.

Swansea-liðið hefur verið í mikilli fallbaráttu síðustu vikur en átta mörk eftir áramót frá Gylfa hafa hjálpað verulega við að toga Swansea upp úr mestu fallhættunni.

Sjá einnig:Gylfi rýkur upp á lista Sky

Velska liðið er nú í 15. sæti með 37 stig, tíu stigum frá öruggu sæti og ætti að halda sér klárlega í deildinni nái það einum sigri í viðbót í síðustu sex leikjunum.

Swansea er aðeins búið að skora 33 mörk á leiktíðinni en Gylfi er búinn að skora 47 prósent marka liðsins á nýju ári. Varnarleikurinn, aftur á móti, hefur verið til nokurra vandræða.

„Við höfum fengið á okkur of mörg mörk á þessari leiktíð en styrkleiki okkar í fyrra var einmitt að verjast sem lið,“ segir Gylfi Þór í viðtali við ESPNFC.

Sjá einnig:Aðeins Kane og Agüero eru búnir að skora meira en Gylfi Þór á árinu

Þó liðið sé nánast sloppið við fall og verður að öllum líkindum í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð eru Gylfi og félagar ekki byrjaðir að hugsa svo langt.

„Við erum ekki einu sinni byrjaðir að hugsa um næstu leiktíð og hvað við þurfum að bæta. Við þurfum bara að passa að við höldum okkur í deildinni og þegar sætið er tryggt getum við farið að hlakka til næsta tímabils,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×