Enski boltinn

Gylfi við BBC: Við erum ekki öruggir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið magnaður með Swansea á þessu ári eins og áður hefur verið fjallað um. Hann skoraði sitt tíunda mark um helgina er Swansea náði 2-2 jafntefli gegn Stoke á útivelli.

Swansea var í vandræðum framan af tímabili en er eftir gott gengi að undanförnu tíu stigum frá fallsæti þegar sex umferðir eru eftir af tímabilinu. Þrátt fyrir það sagði Gylfi í viðtali við BBC að Swansea væri ekki hólpið.

Sjá einnig: Fyrsti Íslendingurinn í slétt ellefu ár sem brýtur tíu marka muninn

„Maður veit aldrei hvernig svona mál þróast. En við erum ekki of öruggir með okkur eins og málin standa núna,“ sagði Gylfi.

„Ég held að við þurfum að ná í nokkur stig til viðbótar og líklega myndi einn sigur til viðbótar tryggja þetta fyrir okkur.“

„Nú er það undir okkur komið að halda áfram og ná í eins mörg stig og við getum, svo við verðum í góðri stöðu þann 15. maí [þegar tímabilinu lýkur]. Það eru nokkrir afar mikilvægir leikir fram undan.“

Sjá einnig: Gylfi hefur skorað 47 prósent marka Swansea á árinu 2016

Kantmaðurinn Jefferson Montero kom inn á sem varamaður í hálfleik gegn Stoke og Gylfi segir að innkoma hans hafi breytt miklu.

„Þegar hann nær að spila sinn besta fótbolta er hann nánast óstöðvandi vegna þess mikla hraða sem hann býr yfir,“ sagði Gylfi.

„Það er auðvelt fyrir mig og framherjann að tímasetja bara hlaupin okkar og mæta fyrirgjöfunum hans. Við vitum að í níu skipti af tíu mun boltinn koma inn í teig og það er því bara spurning um hvort að við séum þarna til að taka á móti honum eða ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×