Enski boltinn

Gylfi hefur skorað 47 prósent marka Swansea á árinu 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í gær sitt áttunda mark í þrettán deildarleikjum sínum með Swansea City á árinu 2016 og hefur skorað næstum því helming marka velska liðsins á nýju ári.

Gylfi skoraði aðeins tvö mörk í nítján leikjum fyrir áramót en íslenski landsliðsmaðurinn hefur verið óstöðvandi fyrir framan mark andstæðinganna á nýju ári.

Frá áramótum hefur Gylfi skorað 8 af 17 mörkum Swansea í ensku úrvalsdeildinni sem gera 47 prósent marka liðsins.

Gylfi var búinn að skora helming marka liðsins þegar hann minnkaði muninn í 2-1 á móti Stoke City á Britannia leikvanginum í gær.

Alberto Paloschi skoraði fyrir Swansea ellefu mínútum síðar og tryggði velska liðinu 2-2 jafntefli og mikilvægt stig.

Markahlutfall Gylfa lækkaði því niður í 47 prósent sem er afar há tala ekki síst þar sem Gylfi er miðjumaður.

Í spilaranum hér fyrir ofan má síðan sjá þetta laglega tíunda mark Gylfa Þórs Sigurðssonar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.



Mörk Swansea City á árinu 2016:

Gylfi Þór Sigurðsson  8

André Ayew 2

Alberto Paloschi 2

Ashley Williams 2

Wayne Routledge 1

Modou Barrow 1

Federico Fernández 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×