Enski boltinn

Aðeins Kane og Agüero eru búnir að skora meira en Gylfi Þór á árinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þrír markahæstu leikmenn ársins í ensku úrvalsdeildinni.
Þrír markahæstu leikmenn ársins í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson heldur áfram að bera Swansea-liðið á bakinu í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði enn og aftur fyrir Svanina þegar liðið gerði jafntefli við Stoke, 2-2, um helgina.

Swansea kom til baka eftir að lenda 2-0 undir og náði í mikilvægt stig, en fallegt mark Gylfa með skoti fyrir utan teig var það sem kom velska liðinu á bragðið. Ítalinn Alberto Paloschi skoraði jöfnunarmarkið.

Sjá einnig:Fyrsti Íslendingurinn í slétt ellefu ár sem brýtur tíu marka múrinn

Gylfi hefur verið sjóðheitur eftir áramót og skorað átta mörk, en hann er í heildina búinn að skora 47 prósent marka Swansea-liðsins á árinu 2016 sem er nokkuð gott fyrir miðjumann.

Með markinu gegn Stoke um helgina komst Gylfi upp í tíunda sæti markalista ensku úrvalsdeildarinnar, en þar situr hann ásamt Austurríkismanninum Marko Arnautovic, leikmanni Stoke. Þeir félagarnir munu einmitt mætast í lokaleik riðlakeppni EM í Frakklandi í sumar þegar Ísland og Austurríki leiða saman hesta sína.

Sjá einnig:Gylfi við BBC: Við erum ekki öruggir

Gylfi hefur verið svo heitur á árinu 2016 að bara tveir helstu markahrókar deildarinnar, Harry Kane og Sergio Agüero, skáka honum. Kane er markahæstur á árinu 2016 með ellefu mörk en Agüero er búinn að skora tíu. Jermaine Defoe, framherji Sunderland, hefur verið jafniðinn og Gylfi og er einnig með átta mörk.

Gylfi Þór hefur skorað töluvert fleiri mörk fyrir Swansea en sumir af helstu framherjum deildarinnar á nýju ári. Jamie Vardy er „aðeins“ búinn að skora fjögur mörk fyrir Leicester, Romelu Lukaku þrjú mörk fyrir Everton og Odion Ighalo eitt mark fyrir Watford.

Frammistaða Gylfa hefur hjálpað Swansea að klifra upp úr mestu fallhættunni en liðið er nú með 37 stig, tíu stigum frá falli þegar liðin eiga sex til sjö leiki eftir. Einn sigur í viðbót ætti að gulltryggja áframhaldandi veru Swansea í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×