Enski boltinn

Gylfi fyrsta "tían" til að skora tíu mörk á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er markahæsti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar í dag og það þrátt fyrir að vera aðeins kominn með tvö mörk um áramótin.

Gylfi skoraði sitt tíunda deildarmark í 2-2 jafntefli á móti Stoke City á Britannia leikvanginum í gær.Gylfi hefur skorað átta mörk í síðustu þrettán leikjum sínum.

Gylfi varð í gær fyrsta tían til að skora tíu mörk á tímabilinu en svokölluð tía hjá liðunum er sóknarsinnaður miðjumaður sem spilar vanalega í "holunni" á bak við framherja liðsins.

Þýska tölfræðisíðan Transfermarkt heldur úti tölfræði um leikmenn í evrópsku deildunum og er búin að verðmeta og stöðugreina leikmenn deildannar í viðbót við það að halda utan um leiki og skoruð mörk.

Samkvæmt skilgreiningu Transfermarkt er Gylfi eini leikmaðurinn í þessari tíu-stöðu sem hefur náð að skora tíu mörk í fyrst 32 umferðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Dimitri Payet hjá West Ham skoraði sitt níunda mark í gær en Georginio Wijnaldum hjá Newcastle hefur setið á níu mörkunum síðan 16. janúar. Hollendingurinn, sem skoraði mest fjögur mörk í einum leik, hefur ekki skorað í síðustu níu leikjum sínum.

Hér fyrir neðan má sjá lista Transfermarkt yfir markahæstu tíurnar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Í spilaranum hér fyrir ofan má síðan sjá þetta laglega tíunda mark Gylfa Þórs Sigurðssonar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Markahæsta "tían" í ensku úrvalsdeildinni 2015-16:

1. Gylfi Þór Sigurðsson, Swansea 10

2. Dimitri Payet, West Ham 9

2. Georginio Wijnaldum, Newcastle 9

4. Ross Barkley, Everton 8

5. Philippe Coutinho, Liverpool 7

6. Christian Eriksen, Tottenham 6

6. Kevin De Bruyne, Manchester City 6

8. Mesut Özil, Arsenal 5

8. Juan Mata, Manchester United 5

8. Manuel Lanzini, West Ham 5


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×