Þingflokkur Framsóknarflokksins sammæltist um á fundi sínum í dag að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um opinber skjalasöfn sem nemur 110 ára regluna svokölluðu úr gildi.
Ákvæðið kom inn í lög árið 2012 með upplýsingalögum Jóhönnu Sigurðardóttur. Áður hafði verið miðað við áttatíu ára leynd hefðu skjölin að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða varði skjalið almannahagsmuni.
Meðal gagna sem dregin hafa verið undir lagaákvæðið má nefna gögn sem liggja nú í sérstöku herbergi á Alþingi. Þingmenn geta skoðað efni gagnanna einn í einu en óheimilt er að afrita þau með nokkrum hætti eða tjá sig um þau við aðra.
„Það er nauðsynlegt að fara ofan í öll þessi þjóðfélagslega mikilvægu mál, m.a. þau sem snúa að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og það er fagnaðarefni að nú séu uppi umræður í samfélaginu að skoða þessi mál frá hruni til dagsins í dag,“ segir Ásmundur Einar Daðason um málið á heimasíðu Framsóknar.
