Lífið

Nýársspá Siggu Kling – Vog: Sérð hvernig þú lætur drauma þína rætast

Elsku vogin mín. Þú ert með svo stórt hjarta og ætlar þér svo mikið. Allar þessar tilfinningar sem þú hefur geta öskrað á þig þegar þér finnst vera eitthvert ósamræmi í lífinu og þá heyrir þú sko hávaðann.

Þú ert í raun mjög skipulögð og um leið og þú ert viss um hvað þú ætlar að gera á þessu ári fær bjartsýni þín byr undir báða vængi og nýja upphafið sem þú hefur beðið eftir hefst.

Lífskrafturinn er eins og endurnýjaður og þú lætur bara vaða í það sem þig dreymir um og það er það sem þetta líf snýst um: Að láta drauma sína rætast! Þetta er akkúrat árið sem þú sérð hvernig þú gerir þér það fært.

Þú verður ekki fullkomlega kvíðalaus en mundu að það er líka hluti af því að þora. Að þora veldur því að áhyggjur banka frekar upp á hjá þér en svo er það undir þér komið að skapa kraft úr stressinu og áhyggjunum, elsku vogin mín. Hlaup og alls kyns göngur eru fullkomin hreyfing fyrir þig þó þær séu það ekki fyrir mig, enda er ég naut.

Þú eflir vináttu á árinu og gestrisnin hjá þér verður til fyrirmyndar. Þú gerir alltaf allt á svo fallegan hátt, til dæmis bara það að leggja á borð. Allt verður eitthvað svo smart, jafnvel þótt þú pantir bara pitsu þá er einhver elegans í því hjá þér.

Dálitlir stormsveipir einkenna ástina, sumir kalla svona stormsveipi ástríðu en ég kalla það vesen. Þetta er ár ástríðu og tilfinninga og það er sérstaklega gott ef þú vilt fara út fyrir þægindarammann, skapa eitthvað eða leggja kraft þinn í einhvers konar keppni.

Þú ert að taka gott karma út úr bankanum þetta árið og til hamingju með þetta góða líf sem þú átt. Þakkaðu fyrir það sem þú hefur, þá alheimsorkan þér meira gefur!

Gleðilegt ár, elskan mín! Þín, Sigga Kling

Frægir í voginni: Glúmur Baldvinsson stjórnmálafræðingur, Hjalti flugþjónn, Ingi í Sign, Jón Axel Ólafsson athafnamaður, Matt Damon leikari, Íris Berg, fatahönnuðurinn minn, Mary Poppins, Steingrímur Sævarr Ólafsson fjölmiðlaráðgjafi, Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og sjónvarpskona, Hanna Birna Kristjánsdóttir þingkona.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×