Innlent

Starfsmenn Vodafone þurftu að flýja myglusvepp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá höfuðstöðvum Vodafone í Skútuvogi.
Frá höfuðstöðvum Vodafone í Skútuvogi. Vísir/Daníel
Myglusveppur gerði starfsfólki í þjónustuveri Vodafone við Skútuvog lífið leitt síðari hluta árs 2015. Þurfti meðal annars að flytja heilt símaver í annað húsnæði skömmu fyrir jól og er þjónustuverið nú tímabundið rekið á tveimur stöðum. Einhverjir starfsmenn fundu fyrir einkennum vegna vandans segir Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Vodafone.

Hún segir að grunur hafi kviknað um eitthvað óeðlilegt í húsnæðinu seinni hluta liðins árs og strax hafi verið ráðist í að rannsaka málið í samstarfi við sérfræðinga og leigusalann. Í kjölfarið hafi verið farið í viðgerðir. Gunnhildur segir um að ræða afmarkað svæði á jarðhæð hússins í Skútuvogi.

Sjá einnig: Þolendur bera einir kostnaðinn

Myglusveppur verður oft vegna rakaskemmda sem ekki er brugðist nógu hratt við með viðeigandi framkvæmdum.
„Þegar ljóst var að frekari viðgerða var þörf á húsnæðinu var ákveðið að taka enga sénsa varðandi heilsu starfsmanna og flytja þá sem staðsettir voru á þessu tiltekna svæði, sem er einkum sölu- og þjónustusvið félagsins, tímabundið í annað húsnæði,“ segir Gunnhildur í skriflegu svari til fréttastofu.

Nú sé því hluti þjónustuversins rekinn í Skútuvogi en hluti í Ármúla þar sem MP banki var áður til húsa. Gunnhildur segir alla hafa lagst á eitt til að flutningurinn gengi sem snuðrulausast fyrir og ættu starfsmenn þar mikið hrós skilið.

Sjá einnig: Í einangrun í sumarbústað vegna myglusvepps

Mygla í íbúðarhúsnæði. Mynd úr safni.
„Má t.a.m. nefna að opnunartími þjónustuvers, sem er á meðal þeirra eininga sem voru fluttar, hélst óskertur þrátt fyrir að flytja þyrfti heilt símaver með tilheyrandi tækjum og tengingum, og það rétt fyrir jól. Sú helgi var einstaklega vel nýtt.“

Gunnhildur segir að því starfsfólki sem hafi fundið til einkenna hafi verið boðin læknisskoðun og fleira slíkt. Flutningarnir hafi þó ekki haft nein áhrif á þjónustuna.

„Allir hafa lagst á eitt hér um að starfsemin haldi fullum dampi og hvergi sé slakað á þjónustunni. Starfsmenn hafa sýnt mikið umburðarlyndi og skilning og eiga stórt hrós skilið. Við erum jú, tímabundið á tveimur stöðum, en vinnum með það og gengur vel.“

Sjá einnig: „Sonur minn er ekki tilraunadýr“

Myglusveppur hefur fundist víða í höfuðborginni undanfarin misseri. Starfsmenn í ráðuneytum, starfsfólk á BUGL, starfsfólk á Landspítalanum, félagsmiðstöðum og víðar hafa veikst af þessum sökum og þurft hefur að grípa til ráðstafana til að vinna bug á vandamálinu.

Vandamálið er þó ekki síður algengt í heimahúsum en Fréttablaðið fjallaði ítarlega um myglusveppavandamál bæði á vinnustöðu og heimilum síðastliðið haust. Umfjöllun má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Leigusalar fela myglusvepp

Fjölmörg dæmi eru um leigjendur sem hrekjast út úr íbúðum vegna veikinda af völdum myglusvepps. Framkvæmdastjóri Leigusamtakanna segir sárlega skorta eftirlit með leigumarkaðnum.

Í einangrun í sumarbústað vegna myglusvepps

Birgitta Braun getur ekki lifað eðlilegu lífi vegna myglusveppaveikinda. Hún er ein af mörgum sem eiga við alvarlegan heilsubrest að stríða en mæta skilningsleysi og ráðaleysi lækna.

Myglusveppur herjar á starfsmenn BUGL

Líkur eru á að færa þurfi starfsemi BUGL í annað húsnæði vegna gruns um myglusvepp. Sveppur fannst í eldri byggingu deildarinnar í sumar, og nú í þeirri nýju.

„Við viljum ekki vera vont fólk“

Páll Winkel segir að Íslendingar megi skammast sín fyrir ástand fangelsismála. Myglusveppir og hriplekt þak er meðal þess sem fangar og fangaverðir í Hegningarhúsinu mega búa við, í miklum þrengslum.

Fá tæpar 1,2 milljónir króna vegna myglu í leiguíbúð

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Háskólagarða ehf. til þess að endurgreiða fyrrverandi leigjendum leigu sem þau höfðu greitt vegna myglu sem greindist í húsnæðinu eftir að leigjendurnir fluttu inn.

Myglusveppaþolendur hraktir úr vinnu

Þeir sem veikjast vegna myglusvepps á vinnustað hafa lítil sem engin réttindi þegar það kemur að fjárhagstapi, heilsutjóni eða atvinnuöryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×