Innlent

Á batavegi eftir myglusvepp: „Það skiptir máli að vera jákvæður“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Tómas átti við mikil veikindi að stríða af völdum myglusvepps.
Tómas átti við mikil veikindi að stríða af völdum myglusvepps. Vísir/Pjetur
Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir, hefur undanfarin ár reynt að vekja athygli á myglusvepp, bæði almennt og ekki síst hvernig hann hefur komið sér fyrir á Landspítalanum, vinnustað Tómasar. Á spítala fara landsmenn almennt til að leita sér lækninga við meinum sínum en að starfa þar reyndist skaðlegt Tómasi og heilsu hans.

„Við verðum að auka áhuga á þessum sjúkdómi og að peningum sé veitt í rannsóknir á honum. Þetta er eitthvað sem læknadeild hér þarf að taka upp sem kennsluefni,” sagði Tómas á kynningarfundi GRÓ, samtaka um tengsl heilsu við myglu og raka.

Sjá einnig: Veiktist vegna myglunnar

Ástandið á Landspítalanum sé sumstaðar heilsuspillandi. Þetta segi hann engan veginn til þess að kaupa atkvæði fyrir nýjum Landspítala en þau viðbrögð fékk hann úr einhverjum áttum frá þegar hann hóf að vekja athygli á ástandinu á húsakostinum.

Hann þekkir það af eigin raun hvernig það er að þjást dag frá degi af völdum myglusvepps. „Það er ástæðan fyrir því að ég stíg fram. Það er ekkert eftirsóknarvert að vera andlit myglunnar á Íslandi.” Honum þykir mikilvægt að segja öðrum læknum frá því hvað greiningin tók langan tíma af því að hann telur sig hafa mætt ákveðnum fordómum þegar veikindin herjuðu á hann. Hann hafi verið talinn þunglyndur og fúll.

Sjá einnig: Myglan kostað 160 milljónir

Hann sagði sögu sína á kynningarfundinum sem fer hér á eftir.

Tómas starfaði í gamla Landspítalahúsinu en hann hafði hlakkað til að starfa þar þegar hann var læknanemi.Vísir/Pjetur
Skortur á viðhaldi og nýbyggingum vandamál

Læknirinn veiktist af völdum myglusvepps sem var á skrifstofunni hans í gömlu byggingu Landspítalans sem stendur við Hringbraut. Hann segist í raun skammast sín fyrir það hversu langan tíma það tók hann, lækninn sjálfan, og samstarfsmenn sína að greina vandamálið. Í sama húsi eru skurðstofur.

„Þetta ástand sem hefur skapast á LSH er skortur á viðhaldi og nýbyggingum. Viðhald hefur verið sett á bið og við erum að fá svona hrikalega bakreikninga vegna þess innanhúss.”

Sjá einnig: Tugir á kynningarfundi um myglusvepp: „Ómetanlegt að finna stuðning“

Tómas var ráðinn í stöðu prófessors hjá Landspítalanum árið 2008 og fékk vegna þess fína skrifstofu í gömlu byggingunni við Hringbraut. Hann var stoltur af skrifstofunni enda var hún falleg og hreinleg á yfirborðinu. „Mér þótti það alltaf svolítið fyndið þegar ég lagði pappír út í glugga að hann skyldi verða eins og gráðostur á litinn,” útskýrði Tómas glettinn.

„En mér þótti skrýtið að ég var alltaf veikur. Hiti, skjálfti, einkennunum hefur verið lýst vel hérna í kvöld. En ég fór samt alltaf í vinnuna, það var eins og ég væri að fá flensu en var samt ekki alveg veikur.”

Í húsinu sem olli myglusveppasýkingu Tómasar eru framkvæmdar skurðaðgerðir.Vísir
Enginn læknir nefndi myglusvepp

Fjallgöngur hafa verið áhugamál hjá Tómasi um árabil en stuttu áður en hann hóf að vinna á skrifstofunni gekk hann Kilimanjaro og taldi einkennin eftirköst af ferðinni. Hann fór einnig til tannlæknis þegar hann fór að finna undarlegt bragð í munni og sá taldi nauðsynlegt að draga úr honum tvær tennur.

En allt kom fyrir ekki þrátt fyrir greiðan aðgang að hinum ýmsu rannsóknum og sérfræðiáliti varð hann sífellt veikari. Á einum tímapunkti tilkynnti hann húsvörðum að hann fyndi undarlega lykt úr innstungunni á skrifstofunni hjá sér. Samt kviknaði ekki á perunni, kítti var sett yfir innstunguna og þegar lak í glugga hans var málað yfir.

Sjá einnig: Myglusveppurinn sendi konu á leið í þríþraut í rúmið

„Við erum fimm hjartaskurðlæknar. Það sem var að gera okkur mestan óleik í okkar teymi var hvað maður var slappur eftir vakt. Maður hugsaði bara vá hvað ég er orðinn gamall.” Síðar kom í ljós að myglusveppur var í veggjum svefnaðstöðu læknanna og því vöknuðu læknarnir þreyttir og veikir þrátt fyrir margra tíma hvíld.

Tómas stillir sér upp ásamt Sylgju Dögg Sigurjónsdóttur, sérfræðingi í myglusvepp, en hann telur hana hafa bjargað sér.Vísir/Íris
Heyrði ekkert í fluginu á leiðinni heim frá Kína

Kona Tómasar velti vöngum yfir heilsuleysi hans og tók að leita skýringa. „Hún komst að því að þegar ég var úti í útlöndum var ég alltaf rosalega hress en þegar ég var heima var ég lítið hress. Hún tengdi þetta við það að á hótelum úti í útlöndum borðaði ég alltaf svo mikið af beikoni í morgunmat. Hún hélt þess vegna að það vantaði beikon í blóðið mitt,” sagði Tómas og salurinn hló. Þrátt fyrir aukið át á beikoni batnaði ástandið ekki.

„En þetta breytti því að ég fór að hugsa um alveg fáránlega hluti sem mögulega orsök veikindanna.” 

Tómas varð svo veikur að þegar hann hélt heim úr ferðalagi til Kína heyrði hann ekkert í flugvélinni á leið heim. „Ofnæmið var búið að stífla alveg ennisholur og kinnholur og skerða heyrn.”

En hvernig greindist myglusveppaeitrunin hjá Tómasi að lokum?

„Ég fer til tíunda læknisins og hún segir það svo skrýtið að ég sé þriðji kolleginn sem komi til hennar á stuttum tíma með sömu einkenni. Og að við vinnum allir í sömu byggingu. Þá fer boltinn að rúlla.”

Einn í heiminum með ógreindan sjúkdóm

Tómas yfirgaf skrifstofuna sína og skildi allt eftir, húsgögn, tölvu, pappíra til að mynda, og kom þar inn fyrir dyr í fyrsta skipti í þrjú ár nýverið. Nú er búið að rífa allt inn úr henni og skipta um glugga.

„Stundum nægir það til þess að ég finni einkenni ef ritarinn minn setur blöð sem voru inni á gömlu skrifstofunni minni í töskuna mína, ég flýg erlendis og fer að hnerra þegar ég tek þau upp á hótelherberginu. Það hljómar eins maður sé ímyndunarveikur, en maður er það ekki,” sagði Tómas og salurinn tók undir.

„Það skiptir máli að vera jákvæður. Maður getur náð bata. En á tímabili, á meðan maður er ekki kominn með greiningu þá líður manni eins og maður sé með krabbamein. En getur ekki rætt þetta við neinn af því að maður er ekki klár á greiningunni.”


Tengdar fréttir

Myglusveppur í ráðuneyti velferðarmála

Flytja hefur fólk úr velferðarráðuneytinu til starfa annars staðar meðan hreinsaður er burt myglusveppur á þriðju hæð ráðuneytisins. Í haust kom upp myglusveppur í annað sinn. Framkvæmdir nú ná til 16 skrifstofa og fundaaðstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×