Innlent

Endaði á ljósa­staur eftir flótta undan lög­reglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Átta gistu í fangageymslu eftir nóttina samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Átta gistu í fangageymslu eftir nóttina samkvæmt dagbók lögreglunnar. Vísir/Ívar Fannar

Maður neitaði að verða við skipunum lögregluþjóna um að stöðva bíl sinn í Reykjavík í gærkvöldi. Við það hófst eftirför sem endaði skömmu síðar þegar maðurinn keyrði á ljósastaur.

Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi slasast þegar bíllinn endaði á ljósastaurnum en ekki segir hvort það hafi verið alvarlegt. Hann mun hafa verið fluttur á slysadeild í kjölfarið.

Alls voru 69 mál skráð í kerfi lögreglunnar frá fimm í gærkvöldi til fimm í morgun og gistu átta manns í fangaklefa í nótt. Á meðal verkefna lögreglu voru nokkur heimilisofbeldismál og ökumenn undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Þá var tilkynnt um tvo menn fara inn á lokað svæði við verslunarkjarna í Reykjavík. Lögregluþjónar fundu þá seinna á efstu æðum og var þar um að ræða sautján og átján ára drengi.

Þeir sögðust hafa farið inn á svæðið til að bjarga ketti sem rataði þangað inn og voru þeir með kött í höndunum. Sautján ára drengnum var ekið heim til sín en hinn átján ára og kötturinn fengu að fara á vettvangi.

Lögregluþjónar handtóku einnig mann sem neitaði að greiða fyrir leigubíl. Sá var mjög ölvaður og streittist á móti lögregluþjónum. Hann endaði í fangaklefa, þar sem hann er sagður hafa reynt að bíta lögregluþjóna.

Lögreglan hefur til rannsóknar mál þar sem múrsteini var kastað inn um rúðu á útidyrahurð í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×