Innlent

Þolendur myglusvepps bera einir kostnaðinn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Mygla
Mygla
Á Facebook er hópur sem kallast Myglusveppur – þolendur en þar eru á sjötta hundrað manns sem eiga það sameiginlegt að hafa barist við myglusvepp og afleiðingar hans.

Blaðamaður setti upp könnun í hópnum um fjárhagslegt tap vegna myglusvepps. Áttatíu manns svöruðu könnuninni og höfðu allir orðið fyrir einhvers konar fjárhagslegu tjóni vegna myglusvepps. Stærsti hluti hópsins sem svaraði hefur þurft að borga fyrir framkvæmdir á fasteign, misst innbú sitt, þurft að losa sig við fatnað, orðið fyrir atvinnumissi og tapað heilsu sinni vegna myglusvepps.

Jafnvel þótt fólk sé með innbústryggingu, heimilistryggingu og sjúkratryggingu þá eiga þær ekki við þegar kemur að myglusvepp. Myglusveppur kemur upp á löngum tíma vegna viðvarandi leka eða raka. Ekki er um skyndilegt vatnstjón að ræða sem er almennt bætt með tryggingum. 

Þegar fólk verður mjög veikt af völdum myglusvepps myndar það slíkt óþol við sveppnum að það getur ekki verið nálægt hlutum sem hafa fengið á sig sveppinn eða inni í húsnæði þar sem vottur af myglusvepp er. Því eru mörg dæmi um að fólk flytji úr húsnæði með myglusvepp en heilsan lagast ekki vegna húsgagna, fatnaðar og annarra hluta sem voru í gamla húsnæðinu og eru þakin sveppagróum sem illmögulegt er að hreinsa úr hlutum. Þannig að fyrir utan dýrar rannsóknir, framkvæmdir og rask sem getur skapast þegar myglusveppur kemur upp þá þurfa þeir sem verst hafa orðið úti að losa sig við öll húsgögn, fatnað og persónulega muni með tilheyrandi kostnaði.

Guðbjörg Þóra, maðurinn hennar og þrjú börn þurftu að losa sig við nær allar sínar eigur þegar þau fluttu út úr myglusveppasýktu húsnæði.
Eins og að lenda í bruna en án skilnings 

Guðbjörg Þóra Ingimarsdóttir og fjölskylda hennar voru lengi að átta sig á því að myglusveppur væri að valda langvarandi heilsubresti hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Heilsan lagaðist strax við að flytja út úr húsnæðinu síðastliðið sumar en ofnæmiskerfi Guðbjargar er orðið svo lélegt að hún getur ekki komið nálægt gömlu húsgögnunum eða verið inni í húsnæði sem vottur af myglusvepp er í.

„Við hentum næstum öllum okkar eigum og við fáum það ekki bætt úr tryggingum. Það er enginn bótaréttur þegar kemur að myglusvepp sem sýnir það og sannar að maður er ekki að henda dótinu sínu til að svíkja út úr tryggingum,“ segir Guðbjörg.

Fjölskyldan henti húsgögnum, sængum og fötum. Í raun öllu nema mjög dýrum tækjum og tölvubúnaði. Þau dauðhreinsuðu þá hluti og ætla að taka eitt og eitt inn í nýju íbúðina sem þau eru í og athuga hvort það verði í lagi.

„Svo pakkaði ég þessu dýrmætasta í kassa. Myndum af börnunum og öðru ómetanlegu dóti og þori kannski að athuga með það eftir nokkur ár. Það er sárast að hugsa til þess að þessir hlutir séu mögulega glataðir. Hitt er hægt að endurnýja.“ Guðbjörg segir þetta hafa verið eins og að lenda í bruna, nema án skilnings og samúðar frá samfélaginu og án þess að fá tjónið bætt.

„Við mættum svakalega miklu skilningsleysi og fordómum. Fólki fannst við klikkuð og sagði okkur að henda þessu bara í þvottavél. Enda veit fólk lítið um myglusvepp og hversu þrálátur hann er þegar hann hefur komist í snertingu við hluti. Þegar maður hefur upplifað að vera heilsulaus til lengri tíma vegna myglusvepps tekur maður heilsuna fram yfir veraldlegar eigur. Okkur datt ekki í hug að taka sénsinn á að vera með eitraða hluti inni hjá okkur og verða veik aftur. Enda ráðlagði fólk með slæma reynslu af þrálátum veikindum vegna sveppasýkts innbús okkur að henda öllu.“



Fjölskyldan þurfti meðal annars að henda:

Öllum fötum og skóm, sófasetti og borði, fjórum rúmum og rúmfatnaði, dóti barnanna, leikjatölvum og leikjum, prentara, myndavélum, hillum og kommóðum, náttborði, skrifborði, flestum bókum, öllu eldhúsdóti, myndum og römmum, stofustássi, snyrtidóti og töskum.

Engin dómsmál vegna innbús

Dæmi eru um dómsmál vegna fasteignakaupa og myglusvepps sem hafa farið á báða vegu.

En í dómasafni héraðsdóms og Hæstaréttar finnast engin sem fjalla um myglusvepp og ábyrgð leigusala eða tryggingafélaga.

Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Leigjendasamtakanna, segir marga leita til hans vegna innbústjóns af völdum myglusvepps. Myglan er þá talin til komin vegna viðhaldsskorts leigusala eða í kjölfar ófullnægjandi viðgerðar eftir vatnstjón. Málin ættu lögum samkvæmt að vera bótaskyld en Hólmsteinn segir fólk almennt ekki treysta sér í einkamál.

„Startkostnaður er að minnsta kosti 600.000 krónur og sönnunarbyrði er mikil,“ segir hann.

Vitað er um mál í undirbúningi gegn Félagsbústöðum vegna myglusvepps og skemmda á innbúi. Ekki hefur fengist staðfest hversu mörg þau eru.


Tengdar fréttir

Leigusalar fela myglusvepp

Fjölmörg dæmi eru um leigjendur sem hrekjast út úr íbúðum vegna veikinda af völdum myglusvepps. Framkvæmdastjóri Leigusamtakanna segir sárlega skorta eftirlit með leigumarkaðnum.

Ráðlagt að segja ekki frá myglusvepp

Leigusala kom á óvart hve litla þekkingu hagsmunaaðilar fasteignaeigenda hafa á myglusvepp og var henni ráðlagt að leigja út íbúð án þess að segja frá myglusveppum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×