Þetta sýna tölur Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), sem teknar voru saman fyrir Fréttablaðið, og byggja á tölfræði Hvalaskoðunarsamtaka Íslands. Þær sýna að viðskiptavinir hvalaskoðunarfyrirtækjanna árið 2015 voru 272 þúsund, eða tæplega 100 þúsund fleiri en árið 2012. Árleg fjölgun hefur verið 15 til 34 prósent.

Í gögnum SAF kemur jafnframt fram að tólf fyrirtæki muni bjóða hvalaskoðunarferðir á þessu ári. Þeim hefur fjölgað hægt en örugglega á undanförnum árum en þau voru níu árið 2005 en tíu árið 2010, og tólf voru þau í fyrra. Starfsmannafjöldi þessara fyrirtækja var um 100 yfir sumartímann árið 2005 en losaði 250 í fyrra. Tvö þessara fyrirtækja gerðu út frá Reykjavík, fjögur frá Húsavík, þrjú í Eyjafirði og eitt fyrirtæki starfar á Ólafsvík, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.
Samtök ferðaþjónustunnar eiga fund með sjávarútvegsráðherra í næstu viku þar sem samtökin munu leggja áherslu á mikilvægi þess að stækka griðasvæði hvala á Faxaflóa. „Við viljum meina að verið sé að skerða atvinnufrelsi hvalaskoðunarfyrirtækja á Faxaflóa þar sem veiðar á hrefnu eru stundaðar á nánast sama svæði og hvalirnir eru skoðaðir. Að okkar mati er þetta spurning um skipulag og hvetjum við sjávarútvegsráðherra til að stækka griðasvæði á Faxaflóa í samræmi við óskir ferðaþjónustunnar,“ segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. apríl.