Enski boltinn

Rooney spenntur fyrir að leiða framlínu United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rooney í upphitunartreyju Manchester United.
Rooney í upphitunartreyju Manchester United. vísir/getty
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, er klár í að leiða framlínu Manchester-liðsins á næsta tímabili. Rooney segist þó ekki setja sér nein markmið hversu mörg mörk hann ætli sér að skora á næstu leiktíð.

Fyrirliðinn er helsti framherji United fyrir næstu leiktíð í enska boltanum, en undanfarin ár hefur hann verið að spila ýmist á miðjunni eða í fremstu stöðunum. Radamel Falcao og Robin van Persie hafa horfið á braut og nú þarf Rooney að taka við keflinu.

„Framherjastaðan er staða sem ég held að ég geti skorað mörk úr. Ég er tilbúinn í að leiða framlínuna og reyni að skora sem mest fyrir okkur,” sagði hinn 29 ára gamli Rooney.

„Ég hef ekki nein takmörk hversu mörg mörk ég ætli að skora. Eina sem ég er að reyna núna er að gera mig tilbúinn í að vera klár í upphafi móts. Ég hef aldrei sett mér einstaklingsmarkmið. Eina sem ég vil er að hjálpa liðinu.”

Memphis Depay, Bastian Schweinsteiger, Morgan Schneiderlin og Matteo Darmian hafa allir gengið í raðir United í sumar og væntist Rooney mikils af þeim.

„Ég hef verið að hjálpa nýju leikmönnunum að aðlagast. Þeir leikmenn sem við höfum fengið munu koma með reynslu og gæði inn í leikmannahópinn.”

„Ég get reynt að hjálpa þeim að læra um sögu félagsins og hvað er búist við af þeim. Það er svo undir þeim komið að sanna sig,” sagði hinn geðþekki Rooney að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×