Innlent

Þrestir í aðalkeppni San Sebastián-hátíðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd Rúnars fjallar um sextán ára pilt sem sendur er vestur á firði.
Mynd Rúnars fjallar um sextán ára pilt sem sendur er vestur á firði. vísir/stefán
Nýjasta kvikmynd leikstjórans, handritshöfundarins og framleiðandans Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni San Sebastián-hátíðarinnar. Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð segir að San Sebastián-hátíðin sé ein af fáum svokölluðum „A“ kvikmyndahátíðum og fer fram í Donostia-San Sebastián á Spáni frá 18. – 26. september.

Þrestir er dramatísk mynd sem fjallar um 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að búa með föður sínum sem hann hefur ekki séð í ein sex ár. Rúnar Rúnarsson leikstýrir og skrifar handritið að Þröstum. Mikkel Jersin og Rúnar Rúnarsson eru aðalframleiðendur myndarinnar fyrir Nimbus Film. Framleiðandi er Birgitte Hald og meðframleiðendur eru Lilja Ósk Snorradóttir fyrir Pegasus og Igor Nola fyrir Mp Film. Í aðalhlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Rade Serbedzija. Tónlist myndarinnar er samin af Kjartani Sveinssyni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×