Innlent

Ráðherrann vill ekki áfrýja í túlkamálinu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur skilað umsögn til ríkislögmanns og tjáð honum að hann vilji ekki áfrýja dómi í máli Snædísar Ránar Hjartardóttur sem stefndi íslenska ríkinu fyrir að veita henni ekki þá túlkaþjónustu sem hún þarf.

„Ég byggi mína afstöðu á því að það sé óumdeilt að þarna skorti reglur og hafi gert um árabil,” segir Illugi. Það er stjórnarskrárvarinn réttur almennings sem á við fötlun eða veikindi að stríða að ákveðin lágmarksþjónusta sé endurgjaldslaus.

„Þessi lágmarksþjónusta hefur ekki verið skilgreind en það þarf að leggja aukið afl í að leiða slíkar reglur fram. Það þarf að forgangsraða þjónustunni,“ segir Illugi.

Menntamálaráðuneytið lagði sex milljóna króna aukaframlag í túlkasjóð á ári, áður en dómurinn féll. Illugi segir upphæðina eiga að duga til þess túlkasjóður geti sinnt verkefnum sínum og byggir þá upphæð á mati Valgerðar Stefánsdóttur, forstöðumanns Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Héraðsdómur sagði ríkið hafa brotið gegn Snædísi þegar henni var gert að greiða fyrir túlkaþjónustu úr eigin vasa, alls um 50 þúsund krónur. Var ríkinu gert að endurgreiða henni og að auki 500 þúsund krónur í miskabætur.

Það er ríkislögmaður sem ákveður hvort áfrýjað verði til Hæstaréttar, eftir umsagnir fjármála- og heilbrigðisráðuneyta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×