Innlent

Vilhjálmur hyggst leggja áfengisfrumvarpið fram á ný

ingvar haraldsson skrifar
þingmaður Vilhjálmur segir að frumvarpið verði að mestu lagt fram í óbreyttri mynd.
þingmaður Vilhjálmur segir að frumvarpið verði að mestu lagt fram í óbreyttri mynd. vísir/anton brink
 Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja frumvarp um breytingar á áfengislögum fram á ný þegar Alþingi kemur saman í haust. Samkvæmt frumvarpinu verður áfengissala gefin frjáls.

Vilhjálmur á von á því að frumvarpið verði í meginatriðum lagt fram óbreytt en ítarlegri greinargerð verði skrifuð með því. „Nú er komin skýrslan frá Clever Data og þessi skýrsla frá Bretlandi sem afsannar allar hrakspárnar,“ segir Vilhjálmur.

Í nýlegri skýrslu Clever Data er því haldið fram að taprekstur sé á áfengissölu ÁTVR. „Þessi Clever Data-skýrsla sýnir að hagnaðurinn af áfengissölu er enginn,“ segir Vilhjálmur. ÁTVR hafnaði fullyrðingum sem fram koma í skýrslunni og sagði að þær ættu sér „litla stoð í raunveruleikanum“.

Vilhjálmur segir einnig að nýleg skýrsla Institute of Economic Affairs sýni fram á að sólarhringsopnun kráa og skemmtistaða í Bretlandi hafi ekki haft þau skaðlegu áhrif sem óttast sé. Í skýrslunni segir að áfengisneysla á mann í Bretlandi hafi dregist saman frá árinu 2005 þegar opnunartíminn var lengdur.

Þingmaðurinn telur að verði frumvarpið að lögum væri betur hægt að sinna þeim sem ættu við áfengisvanda að stríða þar sem fimm prósent áfengisgjalds renni í lýðheilsusjóð í stað eins prósents líkt og nú er raunin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×