Innlent

Þokast í samkomulagsátt

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Össur Skarphéðinsson og Bjarni Benediktsson á góðri stundu. Stjórnarandstaðan hefur kvartað yfir því að samningar um þingstörf gangi illa við stjórnarliða sem kvarta yfir því sama gagnvart stjórnarandstöðu.
Össur Skarphéðinsson og Bjarni Benediktsson á góðri stundu. Stjórnarandstaðan hefur kvartað yfir því að samningar um þingstörf gangi illa við stjórnarliða sem kvarta yfir því sama gagnvart stjórnarandstöðu. vísir/vilhelm
Enn ríkir fullkomin óvissa um hvernig þingstörfum verður háttað og hvaða mál verða að lögum fyrir þingfrestun. Hlé var gert á þingfundi í gær svo formenn þingflokka gætu reynt að ná saman. Ekkert áþreifanlegt kom út úr fundinum, en þó mjakast menn í átt til samkomulags.

Rammaáætlun og makríll eru enn helstu deilumálin, en þó er ágreiningur um fleiri mál.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins halda ráðherrar Framsóknarflokksins málum ríkisstjórnarinnar harðar fram en ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Hjá þeim síðarnefndu ríkir meiri vilji til samkomulags. Í dag eru 18 dagar síðan fresta átti þingi samkvæmt starfsáætlun, áætlun sem Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, lagði ríka áherslu á að allt þingið skyldi halda.

Samkomulag á þessu stigi gengur út á það að ríkisstjórnin leggur fram lista með þeim málum sem hún setur í forgang að klára. Stjórnarandstaðan mætir því með lista yfir þau mál sem hún gæti sæst á að yrðu að lögum. Og eins og alltaf þegar komast þarf að samkomulagi þurfa báðir aðilar að gefa eftir til að hægt sé að ná saman.

Það sem hefur einkennt stöðuna núna er að djúpt hefur verið á slíkum forgangslista frá stjórninni. Fyrir þinginu liggja á áttunda tug mála frá ráðherrum og stjórnarandstæðingar hafa kallað eftir forgangslista svo hægt sé að semja.

Þingmenn sem Fréttablaðið ræddi við sögðust í gær aldrei hafa upplifað annan eins hnút. Lítið hefur verið fundað og erfiðlega gengið að finna grundvöll að samkomulagi.

Málið er þó betur á veg komið eftir fundarhöld gærdagsins. Þeir bjartsýnustu töldu mögulegt að samkomulag næðist í dag. Það gerir þó málin flókin að semja þarf um allan þann fjölda mála sem fyrir liggur, að hnýta alla lausa enda. Þannig getur eitt mál sem út af stendur fellt samkomulagið, en á sama hátt vinnast mál hratt eftir að saman næst.

Þegar samkomulag er í höfn gæti þingið þurft nokkra daga til að ljúka almennum málum, en ekki er ólíklegt að haftafrumvörpin fái ítarlegri umræðu. Þingið gæti því verið að störfum út mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×