Íslenski boltinn

Meistarastimpillinn er erfiður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason. vísir/stefán
FH-ingum var í fyrradag spáð sigri í Pepsi-deildinni í sumar en FH-liðið fékk langflest stig í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna. Fimm síðustu ár og í sjö skipti af síðustu átta hafa meistaraefnin fallið á prófinu og misst af Íslandsmeistaratitlinum um haustið.

Þannig fór fyrir KR-ingum í fyrra sem og í tvö síðustu skipti sem FH-ingum hefur verið spáð titlinum um vorið (2011 og 2013).

FH var líka síðasta liðið sem stóð undir pressunni en FH-ingar urðu Íslandsmeistarar undir stjórn Heimis Guðjónssonar sumarið 2009 eftir að hafa verið spáð titlinum fyrir mótið. FH-liðið frá 2013 er líka eina liðið, frá og með þeim tíma þegar fyrst voru tólf lið í deildinni sumarið 2008, sem tókst að vinna sinn leik í fyrstu umferð eftir að hafa verið spáð meistaratitlinum.

FH hefur sex sinnum áður verið spáð titlinum og staðið undir meistarapressunni í þrjú af þessum skiptum. Liðið kláraði titilinn 2005, 2006 og 2009 en missti af honum 2007, 2011 og 2013.

Það ætti svo sem ekki að koma FH-ingum á óvart að vera spáð Íslandsmeistaratitlinum enda hefur Hafnarfjarðarliðið verið efst í þessari árlegu spá á öllum oddaárum frá og með 2005.

Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrra þrátt fyrir að vera aðeins spáð fjórða sætinu fyrir mótið. Þetta var aðeins í fimmta sinn í þrjátíu ára sögu spárinnar þar sem meistararnir komust ekki inn á topp þrjú í spánni.

Stjörnumenn komust þar í hóp með KA (spáð 5. sæti 1989), Víkingi (4. sæti, 1991), ÍA (5. sæti, 2001) og KR (4.sæti, 2002) sem urðu öll Íslandsmeistarar þrátt fyrir að vera neðar en í þriðja sæti í spánni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×