Innlent

Sumarþing ef með þarf til að ljúka húsnæðismálunum

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra segir að það verði að afgreiða frumvörp um húsnæðismál áður en Alþingi fer í frí.
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra segir að það verði að afgreiða frumvörp um húsnæðismál áður en Alþingi fer í frí. vísir/gva
Húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra verða tekin fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í dag eða á þriðjudag.

Frumvörpin eru í hefðbundnu kostnaðarmati hjá fjármálaráðuneytinu og yfirlestri hjá forsætisráðuneytinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var unnið í þeim fram eftir degi í gær til að reyna að koma þeim fyrir ríkisstjórn í dag.

Velferðarráðherra boðaði í upphafi kjörtímabils að farið yrði í umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Þrjú frumvörp um málið er að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing; um húsnæðisbætur, húsnæðismál og húsnæðissamvinnufélög.

Yfirstandandi kjarasamningar auka pressuna á það að málin komi fram og Eygló leggur ríka áherslu á að þau verði kláruð á yfirstandandi þingi. Hún vonast til þess að Alþingi nái að ljúka afgreiðslu frumvarpanna fyrir þingfrestun í vor. Ef það náist ekki verði að halda sumarþing.

„Ef einhvern tíma er ástæða til þess að halda sumarþing er það vegna þessara mála. Alþingi verður að starfa eins lengi og þarf til að klára þessi mikilvægu mál. Allur vinnumarkaðurinn er undir og við verðum að afgreiða þessi mál áður en Alþingi fer í frí,“ segir Eygló.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins snúa frumvörpin að stuðningi vegna félagslegs húsnæðis, húsaleigubótakerfi, húsaleigusamningum og málefnum tekjulágra leigjenda. Þá verður tekið á ólíku búsetuformi.

Nokkuð hefur verið beðið eftir frumvörpunum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur fyrst og fremst staðið í mönnum hvernig eigi að fjármagna aðgerðirnar, sem búast má við að verði kostnaðarsamar, og lúti að forgangsröðun fjármuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×