Lífið

Fátítt fyrirbæri á fimmtugsafmælinu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Vísir/Ernir
Þingkonan Vigdís Hauksdóttir stendur á tímamótum en næstkomandi föstudagheldur hún upp á fimmtugsafmæli sitt. Svo skemmtilega vill til að sama dag verður mesti sólmyrkvi sem sést hefur frá Íslandi í sextíu og eitt ár.

„Ég er mikið náttúrubarn og vissi strax fyrir tuttugu árum að sólmyrkvann myndi bera upp þann 20. mars árið 2015 á fimmtugsafmælinu mínu og hef alltaf talað um að þessu verði fagnað reglulega,“ segir Vigdís en hún heldur upp á afmælið að morgni til svo að afmælisgestirnir hafi kost á því að njóta náttúrufyrirbærisins með henni.

„Það er búið að hvetja alla veislugesti til að vera með sólmyrkvagleraugu með sér,“ segir hún glöð í bragði.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að stór náttúruatburður á sér stað á afmæli Vigdísar. „Ég spái rosalega mikið í þessu öllu, sólkerfinu og náttúrunni allri. Árið 2010 gaus Eyjafjallajökull þegar ég átti afmæli,“ segir Vigdís og bætir við að einnig beri vorjafndægur oft upp á afmælisdeginum. Vigdís er að vonum spennt fyrir afmælinu og sólmyrkvanum og veðurspáin eina áhyggjuefnið.

„Núna krossa ég bara fingur og vonast til þess að það verði heiðskýrt og gestirnir geti notið þessa náttúruundurs með mér.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×