Lífið

Þakklæti ofarlega í huga

Rikka skrifar
Eva Laufey ásamt dóttur sinni, Ingibjörg Rósu, vinum og maka
Eva Laufey ásamt dóttur sinni, Ingibjörg Rósu, vinum og maka Vísir/Stefán
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur náttúrulega hæfileika þegar kemur að eldamennsku og framkomu í fjölmiðlum.

Manni finnst einhvern veginn að hún hafi alltaf verið á skjánum. Þessi brosmilda og hlýja unga kona sem alla hrífur með sér er nýfarin af stað með sína aðra þáttaseríu á Stöð 2 þar sem hún fer um víðan völl í matreiðslunni, allt frá einföldum hollusturéttum upp í páskasteikina og allt þar á milli.

Borðar sitt lítið af hverju

Eva Laufey er mikill sælkeri og hefur verið það frá því að hún man eftir sér. „Ég man eftir því að hafa alltaf fengið að hjálpa til við eldamennskuna hjá ömmu minni og á þaðan mínar fyrstu matreiðsluminningar,“ segir Eva Laufey. Síðan þá hefur Eva Laufey stofnað vinsælt matarblogg sem þúsundir aðdáenda heimsækja vikulega. Það var út frá matarblogginu að leið hennar lá í fjölmiðla. „Ég ákvað að stofna matarblogg mér til gamans, það var nú aðallega til að halda utan um þær uppskriftir sem ég var búin að sanka að mér.

Mér fannst ég líka hafa bara eitthvað að segja og ákvað því að fara í þetta verkefni.“

 Eva Laufey sóttist eftir því að búa til sjónvarpsþátt sem úr varð og byrjaði hún með sína fyrstu þáttaseríu á Stöð 3 og á sama tíma gaf hún út sína fyrstu matreiðslubók „Matargleði Evu“. Hún fékk frábærar móttökur og boð um frekari þáttagerð á Stöð 2.

„Í minni fyrstu þáttagerð á Stöð 2 heimsótti ég sælkera landsins og eldaði með þeim gómsæta rétti. Þetta var góð reynsla fyrir mig og skemmtilegt,“ segir hún. Eva Laufey leggur mikla áherslu á að sem flestir geti leikið eftir henni og reynir að halda uppskriftunum sem einföldustum.

Einnig finnst henni mikilvægt að nota sem minnst af tilbúnum vörum og leitast við að nota ferskt hráefni. „Mér finnst mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að elda allt frá grunni og þá skiptir miklu máli að nota sem ferskasta og besta hráefnið. Ég vil líka að sem flestir sjái sér fært að elda þá rétti sem ég geri og vil þá að þeir séu einfaldir, bragðgóðir og í hollari kantinum þó svo að sjálfsögðu læðist inn réttir sem eru ekki eins hollir en það þá endurspeglar mína kenningu um að borða sitt lítið af hverju,“ segir Eva Laufey brosmild.

Gerðist allt svo snögglega

Eva Laufey er fædd og uppalin á Akranesi og mikill Skagamaður í sér að eigin sögn.

„Það voru mikil forréttindi að alast upp á Akranesi. Það er og verður alltaf minn heimabær þótt við Haddi höfum flutt suður. Nálægðin er það góða við Akranes og umhverfið. Ég æfði fótbolta í mörg ár og það er svo gott ungliðastarf í gangi á Akranesi. Svo ekki sé minnst á Skógræktina, Langasand og Akrafjall. Að geta notið náttúrunnar eins og hún gerist best er dýrmætt.“

Eva Laufey er alin upp með Marenu eldri systur sinni og tveimur yngri bræðrum, þeim Guðmundi og Allan. „Það var alltaf mikið líf og fjör á heimilinu, og áttu foreldrar mínir örugglega í fullu fangi með okkur. Ég er mjög heppin með fjölskyldu, þau eru öll svo dásamleg. Mamma hefur kennt mér svo ótal margt varðandi matargerð og pabbi Steindór hefur alltaf verið mér svo góður, hann og mamma tóku saman þegar ég var nokkurra mánaða.“

Síðar var Eva Laufey svo lánsöm að eignast fleiri systkini sem áttu sama föður. „Á seinni árum var ég lánsöm og eignaðist fleiri systkini, en þá kynntist ég systkinum mínum Hemma megin. Það hefur verið ferlega skemmtilegt, og ekki allir sem eignast ný systkini sisvona. Við erum orðin mjög náin, og sérstaklega við systurnar. Enn og aftur, það er gæfa að eiga góða fjölskyldu og maður þakkar aldrei nóg fyrir það.“

Eva Laufey er dóttir Hemma Gunn heitins, það má því ætla að hún beri fjölmiðlahæfileika sína í genunum. „Það var ekki fyrr en á seinni stigum að pabbi Hemmi kom inn í mitt líf. Ég er mjög þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman. Hann kenndi mér margt en mér finnst það vera svo margt sem ég átti eftir að spyrja hann um. Ég veit svo sem ekkert endilega hvort ég hefði spurt hann í lifanda lífi, en þetta gerðist bara allt svo snögglega og var mjög erfiður tími. Mér fannst ég of ung til að missa foreldri,“ segir hún.

Tvö ár eru liðin síðan Hemmi kvaddi og þegar Eva lítur til baka yfir farinn veg þá er henni fyrst og fremst þakklæti ofarlega í huga. „Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þann tíma með honum sem ég fékk. Þegar ég var komin í fjölmiðlaheiminn var hann duglegur að hvetja mig og leiðbeina mér og á þeim tíma kynntist ég honum sífellt betur,“ segir Eva Laufey. Hemmi skilur eftir sig stórt skarð meðal landsmanna og var alveg einstaklega jákvæður og hvetjandi við alla þá sem hann umgekkst. „Hann kenndi mér að lifa í núinu, trúa á sjálfa mig og að ég gæti allt sem mig langaði til.“

Ástin á barni er öðruvísi

Sem fyrr segir er Eva Laufey Akurnesingur og gekk þar bæði í barnaskóla og framhaldsskóla. Hún kynntist Haraldi Haraldssyni, sambýlismanni sínum og barnsföður, í grunnskóla en það fór ekki alveg eins og hún bjóst við í upphafi. „Við vorum saman í bekk í grunnskóla og byrjuðum snemma saman,“ segir hún og hlær.

„Ég var voðalega hrifin af honum og við vorum góðir vinir, en það fór sem fór og hann sagði mér upp í sjöunda bekk. Það var mikil sorg á þessum tíma.“ Þau Haddi héldu samt áfram að vera góðir vinir og úr því varð að leiðir þeirra lágu aftur saman á menntaskólaárunum og hafa þau verið saman síðan þá.

„Hann er alveg frábær, hann Haddi minn, og hefur stutt mig í öllu því sem mig hefur langað til að gera. Ég vissi að hann væri vel gerður og góður maður og kom það enn frekar í ljós eftir að við eignuðumst Ingibjörgu Rósu fyrir átta mánuðum. Hann hefur einstakt lag á henni og það er dásamlegt að fylgjast með þeim saman,“ segir Eva Laufey og bætir við að hún hafi ekki áttað sig á því hvað barneignir breyttu lífinu fyrr en að hún fékk dóttur sína í fangið.

„Ég vissi ekki að það væri hægt að elska svona mikið. Ég elska manninn minn og fjölskylduna mína en ást á barni er öðruvísi og í raun kannski ekki hægt að líkja því saman.“



Lifir til að njóta

Að menntaskóla loknum ákvað Eva Laufey að skrá sig í viðskiptafræði í Háskóla Íslands en hefur nú tekið sér hlé frá því námi. „Mig langaði að læra eitthvað sem nýttist mér og því varð viðskiptafræði fyrir valinu. Ég fann aftur á móti ekki fyrir neinni ástríðu í náminu og ákvað því að fylgja hjartanu og einbeita mér að matreiðslunni og þeim tækifærum sem ég var að fá þar. Þeir kúrsar sem ég er búin með hafa aftur á móti nýst mér vel, eins og til dæmis markaðsfræðin og í rauninni líka öll skipulagning og agi sem ég lærði í Háskólanum, þetta nýtist mér allt.“

Eva Laufey hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún haldi áfram í viðskiptafræðinni enda í nógu að snúast hjá henni og hvorki staður né stund til að skella sér aftur á skólabekk. „Mig langaði líka að njóta stundarinnar og sérstaklega eftir að ég eignaðist Ingibjörgu Rósu, hún hefur breytt mér. Áður fyrr þá vildi ég gleypa heiminn og gera allt, en í dag er ég rólegri og langar til að njóta líðandi stundar. Ég er þó alltaf með markmið en mér finnst líka mikilvægt að lífið komi mér á óvart, ég treysti því bara að ég sé á góðri leið,“ segir Eva Laufey.

Það er alveg víst að okkar kona er rétt að byrja og með sinni fallegu nærveru og hugmyndaauðgi standa henni allar dyr opnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×