Innlent

RARIK fjölgi störfum á Egilsstöðum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, á og rekur Lagarfljótsvirkjun.
Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, á og rekur Lagarfljótsvirkjun. Mynd/RARIK
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs vill að RARIK efli starfsstöð sína á Egilsstöðum. Mikilvægt sé að opinberar stofnanir séu staðsettar víða um landið.

„Varðandi hugmyndir um flutning RARIK frá Reykjavík, vill bæjarstjórn benda á að um og yfir 82 prósent af allri raforkuframleiðslu fyrirtækisins og dótturfélags þess eru á Fljótsdalshéraði,“ segir bæjarstjórnin og bendir á að þótt Rarik hafi verið með nokkuð mannmarga starfsstöð í sveitarfélaginu hafi störfum þar fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. „Því er það mat bæjarstjórnar að efla eigi starfsemi fyrirtækisins enn frekar með markvissum hætti og fjölga störfum þess á Fljótsdalshéraði.“

Bæjarstjórnin vill fá til sín framkvæmdastjóra, formann og varaformann stjórnar RARIK til að ræða hvernig efla megi Rarik á Egilsstöðum. Starfsmenn RARIK eru nú um 200. Af þeim starfa um fimmtíu á aðalskrifstofu í Reykjavík en 150 á 25 öðrum starfsstöðvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×