Innlent

Þingmenn deildu um nýja stjórn RÚV

fanney birna jónsdóttir skrifar
Stjórnarandstaðan er ósátt við að fá aðeins þrjá fulltrúa í stjórn RÚV meðan stjórnin fær sex.
Stjórnarandstaðan er ósátt við að fá aðeins þrjá fulltrúa í stjórn RÚV meðan stjórnin fær sex. Fréttablaðið/GVA
Kosið var í nýja stjórn Ríkisútvarpsins ohf. á Alþingi í gær.

Áður en kosningin fór fram átti sér stað nokkuð heit umræða um hana. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi sökuðu stjórnarliða um að virða að vettugi samkomulag sem hafði verið gert árið 2013 um stjórn RÚV.

Var því haldið fram að samkomulag hefði verið um að fjölga ætti stjórnarmönnum úr sjö í níu og að stjórnin fengi fimm fulltrúa á móti fjórum sem kæmu í hlut stjórnarandstöðunnar. Hins vegar hafi þetta samkomulag verið svikið þegar stjórnin ákvað að taka sex fulltrúa í sinn hlut á móti þremur fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Þannig fá Píratar ekki fulltrúa í stjórn RÚV.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vísuðu þessum málflutningi á bug og sögðu hið eðlilegasta mál að stjórninni væri skipt með þessum hætti, það væri í samræmi við niðurstöðu kosninga.

Nýja stjórn skipa þau Ingvi Hrafn Óskarsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Ásthildur Sturludóttir, Kristinn Dagur Gissurarson, Mörður Árnason, Björg Eva Erlendsdóttir og Friðrik Rafnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×