Innlent

Úrræði fyrir nemendur í vanda

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja úrræði fyrir nemendur í vanda.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja úrræði fyrir nemendur í vanda. Fréttablaðið/Anton
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði lögðu fram tillögu á fundi ráðsins í gær um sérúrræði vegna vímuefnavanda grunnskólanemenda.

„Við vitum að þetta er vandi víða í grunnskólum. Það vantar úrræði fyrir þessa nemendur sem eru komnir í vímuefnavanda. Skólastjórnendur veigra sér við að vísa þeim úr skólanum þar sem þeir vita að það tekur ekkert annað við en gatan. Þannig skapa þessir nemendur vandamál innan skólans,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um ástand í Hagaskóla þar sem nemendur hafa orðið fyrir ofbeldi og ógnunum frá einstaklingum. Kjartan segir þetta eiga sér stað í fleiri grunnskólum og finna þurfi úrræði.

Sjálfstæðismenn vilja að ráðið verði upplýst nánar um þennan vanda. Í fyrirspurninni segir: „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að skóla- og frístundaráð Reykjavíkur verði upplýst um alvarlegan og stigmagnandi vanda, sem við er að etja í ákveðnum skólum borgarinnar vegna ógnana, hótana og ofbeldis, sem nemendur þar verða fyrir af hálfu einstaklinga og jafnvel heilla hópa, sem eiga við vímuefnavanda að stríða.“

Tillagan felur í sér að komið verði á sérúrræði til að mæta þörfum nemenda, sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Nemendum verði boðin dagleg kennsla og ráðgjöf.

Verkefnið verði mótað í samstarfi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Brúarskóla, frístundamiðstöðva og þjónustumiðstöðva. Þá verði jafnframt óskað eftir samstarfi við SÁÁ um verkefnið. Gert er ráð fyrir að úrræðið geti varað í allt að átta vikur fyrir hvern nemanda. Verði ekki bati eftir það þá taki við meðferðarúrræði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×