Innlent

Skattskil voru 99,59% með rafrænum hætti

Svavra Hávarðsson skrifar
Starfsmaður RSK í Hafnarfirði í pappírsflóði fyrri daga.
Starfsmaður RSK í Hafnarfirði í pappírsflóði fyrri daga. mynd/rsk
Innan tveggja ára munu rafræn skattskil leysa pappírsframtöl endanlega af hólmi. Árið 2014 voru pappírsframtöl aðeins rúmlega eitt þúsund og rafræn skil því 99,59% af heildarskilum. Enn meiri einföldun framtalsskila er í pípunum hjá skattayfirvöldum.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að í raun megi halda því fram að pappírsframtöl heyri þegar sögunni til.

Skúli Eggert Þórðarson
„Þó nokkur hluti þessara 1.060 framtala eru þeirra sem eru að hverfa úr landi, og því eru það aðeins tæplega 800 pappírsframtöl sem verið er að skila. Það er ákveðinn hópur, t.d. þeir sem vistast á stofnunum og hafa ekki aðgang að vélum, en í fyllingu tímans munum við liðsinna þessum hópi sérstaklega,“ segir Skúli.

Pappírsskilum hefur snarfækkað á síðustu þremur til fjórum árum og segir Skúli ástæðuna vera þá að embættið gerði átak í því að hafa samband við alla símleiðis sem töldu fram á pappír. „Í mörgum tilfellum er framtalsgerðinni lokið í gegnum síma, en það er einkum hjá fullorðnu fólki en þá eru allar upplýsingar komnar inn á framtalið og þá er engu öðru við það að bæta en að samþykkja framtalið.“

Á næsta ári verður kynnt til sögunnar nýtt framtalsform, rafræna framtalið í dag er í raun pappírsframtalið á rafrænum búningi. Þessu verður breytt og aukablöðin, sem fólk þekkir, felld inn í framtalið sjálft.

Vatnaskil urðu á þessu ári þegar framtalsskilin, og þá er allt talið bæði einstaklingar og lögaðilar, fóru yfir 99%, sem er hæsta hlutfall í rafrænum skilum á Norðurlöndum. „Markmið okkar er að gera öll skilin rafræn og með Leiðréttingunni má segja að í fyrsta skipti sé ákveðið stjórnsýsluverkefni rafrænt með öllu,“ segir Skúli.

Gríðarlegt hagræði hefur fylgt rafrænum skilum. Ekkert týnist og villur eru margfalt færri en áður var. Eftir að bankaupplýsingar komu sjálfkrafa inn á framtalið getur yfir helmingur framteljenda lokið framtalsgerðinni á nokkrum mínútum. „Fyrir 15 árum, ef það er rifjað upp, þá var þetta heilmikil athöfn – að safna saman upplýsingum og setjast svo niður eina kvöldstund sem fór í þetta – svo ekki sé talað um áhyggjur og ama sem menn höfðu af þessu,“ segir Skúli sem bætir við að leiðrétta hafi þurft mikinn hluta framtalanna eftir á. Þá megi fullyrða að þessi bylting spari hinum almenna borgara, fyrirtækjum og hinu opinbera mikla fjármuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×