Innlent

Upplýsa ekki um bætur vegna díoxínmengunar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sorpbrennslunni Funa var lokað eftir að í ljós kom að eiturefni bárust frá henni út í umhverfið og inn Engidal.
Sorpbrennslunni Funa var lokað eftir að í ljós kom að eiturefni bárust frá henni út í umhverfið og inn Engidal. Fréttablaðið/Pjetur
„Ég á ekkert hlut að þessu,“ segir Steingrímur Jónsson í Efri-Engidal um drög að samkomulagi um bætur vegna díoxínmengunar sem bæjarráð Ísafjarðar hefur samþykkt.

Greint var frá díoxínmengun í mjólk frá Efri-Engidal um miðjan desember 2010. Mengunin reyndist einnig vera í kjöti frá Efri-Engidal og frá nokkrum frístundabændum á svæðinu. Í skýrslu Matvælastofnunar um málið kemur fram að díoxín sé meðal eitruðustu efna sem til eru og að efnið brotni mjög hægt niður í náttúrunni. Ljóst var að mengunin stafaði frá sorpbrennslunni Funa sem Ísafjarðarbær starfrækti í Engidal en var lokað í lok desember 2010. Brennslan var á undanþágu vegna díoxínmengunarinnar sem árið 2007 mældist tuttugufalt yfir viðmiðunarmörkum.

„Þetta er búin að vera fjögurra ára þrautaganga,“ segir Steingrímur Jónsson, sem kveður málið enn ekki í höfn þótt bæjarráðið hafi samþykkt drög að samkomulagi sem hann kveður byggt á niðurstöðu matsmanna sveitarfélagsins.

„Þeir eru bara búnir að samþykkja einhver drög og það vantar helling í þau,“ segir Steingrímur sem kveður enn ágreining um upphæðir og til hvaða tímabils bæturnar taki.

„Þeir vilja bara taka tvö og hálft ár,“ segir Steingrímur sem sjálfur telur skaðann ná til lengra tímabils. Hann hafi misst atvinnuna þegar bústofn hans allur, áttatíu kindur og tuttugu nautgripir, var felldur bótalaust vorið 2011. „Ég varð bara að fara að leita mér að vinnu og hef verið vélstjóri til sjós.“

Sumarið eftir að mengunarinnar varð vart var gerð tilraun til að beita fé í Efri-Engidal. Steingrímur segir að hækkandi gildi díoxíns hafi mælst í skepnunum eftir tvo til þrjá mánuði. Fyrir utan að vatn hafi verið skoðað og reynst í lagi hafi eiturmagnið ekki verið rannsakað; hvorki í gróðri né í bleikju sem veiðist í landi hans.

„Ég byrjaði aftur í fyrrahaust með nokkrar skepnur,“ segir Steingrímur sem kveður yfirvöld hafa gefið út að hefja mætti sauðfjárbúskap að nýju. Díoxín í þeim skepnum sem hann haldi nú hafi ekki verið mælt. Mengunin hljóti nú að vera yfirstaðin.

Ísafjarðarbær neitar að afhenda fyrrnefnd drög að samkomulagi um bætur vegna díoxínmengunarinnar. Vísað er í þá grein laga um upplýsingamál sem kveður á um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×