Innlent

Launalækkun sögð faglegs eðlis

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Mynd frá baráttufundi kvenna um jafnrétti
Mynd frá baráttufundi kvenna um jafnrétti
Samband íslenskra sveitarfélaga tekur undir með Kópavogsbæ sem lækkaði laun starfsmanns eftir niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála.

„Þessi niðurstaða er fengin eftir að hafa skoðað málið út frá þeim reglum sem gilda og kjarasamningsbundnum ákvæðum. Niðurstaðan er því faglegs eðlis,“ segir Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Önnur sveitarfélög hafa verið að nota þessa aðferð og hafa meðal annars lækkað laun karlmanna með því til dæmis að segja upp aksturssamningum til þess að jafna launakostnað,“ bætir Halldór við.

Niðurstaða kærunefndarinnar var að háskólamenntun karlmanns skipti ekki máli í því starfi sem hann gegnir og launamunur hans og konu í sambærilegu starfi verði ekki útskýrður með tilvísun í háskólanám hans.

Kópavogsbær taldi að háskólamenntun karlsins gerði hann að verðmætari starfsmanni sem réttlætti hærri laun hans.

Kópavogsbær ákvað að una úrskurði kærunefndar jafnréttismála og setti karlmanninum laun á nýjan leik miðað við þær forsendur sem fram koma í úrskurði kærunefndarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×