Eystri Skaftárketill heldur áfram að síga með vaxandi hraða sem bendir til þess að streymi úr katlinum aukist nú hratt.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að sigið í katlinum sé nú orðið meira en ellefu metrar sem sé þó aðeins um 10 prósent af heildarsiginu sem von er á.
„Á næstu dögum má vænta þess að sighraðinn haldi áfram að vaxa en mjög líklega mun samband við GPS stöðina rofna fljótlega þar sem sjónlínan milli GPS stöðvarinnar sem sígur og endurvarpans á brún ketilsins mun á endanum rofna.
Hlaupvatnið rennur ennþá undir vestanverðum Vatnajökli að öllum líkindum í átt að farvegi Skaftár þar sem búist er við að fyrstu merki um flóð sjáist á fimmtudagsmorgunn (1. október). Þaðan tekur hlaupvatnið um 4 klst að ná að fyrstu vatnamælistöðinni við Sveinstind. Breytingar á vatnshæð við Sveinstind munu þá fljótlega gefa hugmynd um stærð hlaupsins og þróun þess.
Búast má við að vatn flæði út fyrir farveginn við neðri hluta Skaftár seint á fimmtudag og að áhrifa hlaupsins gæti fram í næstu viku,“ segir í tilkynningunni.
Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi, flaug yfir svæðið í gærdag í fylgd fulltrúa Landhelgisgæslunnar, Veðurstofunnar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi. Var flogið yfir Grímsfjall, Skaftá, Langasjór og Jökulheima. Myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi Víðis.




