Slíkt áhugamál getur verið dýrt enda eru flestir strigaskór sem eitthvað er varið í gerðir í mjög takmörkuð upplagi.
„Ég fordæmdi skóblæti fjölskyldumeðlima minna þegar ég var lítill en þegar ég skreið upp í unglingsárin fékk ég bakteríuna. Ég byrjaði samt ekki að safna fyrr en ég flutti til Bandaríkjanna árið 2013. Núna er safnið komið yfir 100 pör og eru langflest af þeim Nike Jordans.“
Að safna strigaskóm er ekki ódýrt áhugamál en yfirleitt seljast vinsælustu pörin upp á nokkrum mínútum og verða að safngripum. Fólk þarf því oft að sætta sig við það að kaupa þá á endursölu á uppsprengdu verði.

Björn varð sér nýlega úti um par af nýju Yeezy Boost 350 eftir Kanye sem eru hannaðir í samstarfi við Adidas.
„Mér finnst að Kanye hefði átt að halda sig hjá Nike. Gæðin í Yeezy Boost 750 og 350 hafa valdið vonbrigðum. Parið sem ég keypti mér er engin bylting í hönnun eða framkvæmd, en Adidas er í mikilli sókn og ef litið er fram hjá endurgerðum af gömlum klassískum skóm frá Nike þá er Adidas ekki langt undan. Ég hef samt sem áður alltaf verið mikill Jordan‘s maður. Safnið mitt samanstendur að mestu af Jordan Retro, það eru rúmlega 60 pör. Fyrsta parið sem ég þráði að eignast var Jordan VI Toro, en Jordan 1 Bred er par sem ég hefði átt að hafa í safninu frá byrjun. Uppáhaldstegundin af Jordans eru þó Jordan 11, en mér finnst þeir sameina þægindi og útlit fullkomlega.“
Björn er búsettur á San Francisco-svæðinu í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað þar sem vélstjóri frá árinu 2013. Það er töluvert auðveldara að nálgast fágæta strigaskó búsettur í Bandaríkjunum enda margar stórar síður eins og Nike sem senda ekki vörur til Íslands og tollurinn getur líka tekið allt gamanið af því að kaupa sér nýja flík.
„Þegar ég var ungur var ég svo heppinn að eiga frænku sem bjó í Ameríku og passaði upp á að ég væri alltaf merktur Jordan frá toppi til táar. Þegar ég hugsa til baka man ég eftir því að hafa átt þónokkur pör af Jordan-skóm sem gaman væri að eiga enn þann dag í dag.“