Fyrirtækið Ferskar kjötvörur ehf. höfðaði skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna tjóns sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir þegar því var synjað um leyfi til innflutnings á 83 kílóum af hollenskum nautalundum í febrúar 2014.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilaði innflutninginn að því tilskildu að kjötinu fylgdu staðfestingar og vottorð um til dæmis að vörurnar hefðu verið geymdar í minnst -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu. Þar sem kjötið var ófryst var eðli málsins samkvæmt ógerlegt að skila inn vottorði um að kjötið hefði verið fryst.
Matvælastofnun hafnaði því að heimila innflutninginn af þessari ástæðu og þar með neitaði tollstjóri að tollafgreiða kjötið, sem í kjölfarið skemmdist.

„Það er hagsmunamál fyrir neytendur í landinu að fá að neyta fersks kjöts sem er flutt inn ferskt en ekki frosið.,“ segir Arnar Þór.
Meðal þeirra spurninga sem lagðar verða fyrir EFTA-dómstólinn í málinu eru hvort hömlur á fersku hráu, kjöti svo sem þær sem fram koma í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim séu í andstöðu við tilskipun EES um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan bandalagsins. Sérstaklega er óskað eftir leiðbeiningum um hvenær hömlur við innflutningi hrás kjöts geti réttlæst af sjónarmiðum um verndun lífs og heilsu manna og dýra.
Þá er óskað eftir áliti á hvort það brjóti í bága við samninginn að krefjast þess að innflytjandi hrás kjöts sæki um leyfi til ráðherra áður en hann flytur inn vöru sína og leggi fram, til umsagnar Matvælastofnunar, aðflutningsskýrslu, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða.