Innlent

Faðir þarf ekki að senda dætur sínar til móður þeirra í útlöndum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í gær.
Dómurinn var kveðinn upp í gær. Vísir/GVA
Íslensk kona krafðist þess að fá dætur sínar og íslensks manns teknar úr umráðum mannsins og að fá þær afhentar. Fólkið fór með sameiginlega forsjá með stúlkunum og lögheimili þeirra var hjá konunni, sem var búsett erlendis. Hæstiréttur féllst ekki á beiðnina og eru stúlkurnar því nú búsettar hér á landi hjá föður sínum. Dómurinn var kveðinn upp í gær.

Héraðsdómur hafði áður komist að sömu niðurstöðu en dómurinn fól sálfræðingi að kanna afstöðu stúlknanna til kröfunnar. Þær lýstu yfir eindregnum vilja sínum til að dvelja hér á landi hjá föður sínum og færðu þær fram gild rök fyrir þeirri afstöðu, að því er segir í dómnum.

Þá kemur einnig fram í dómnum að þegar foreldrarnir gerðu dómsátt um forsjá yfir stúlkunum hafi verið kveðið á um að ef kæmi í ljós að annað barnið, eða bæði, felldi sig ekki við aðstæður hjá móður sinni að hæfilegum aðlögunartíma liðnum ættu foreldrarnir að taka ákvörðun um dvalarstað stúlknanna í samræmi við hagsmuni þeirra og taka mið af óskum þeirra um búsetu til framtíðar, eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfði.

Dómurinn taldi að þegar litið væri til þessa, hagsmuna þeirra og fyrirvarans í dómssáttinni að ekki væri hægt að fallast á kröfu móðurinnar um að fá stúlkurnar afhentar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×