Innlent

Össur um Davíð: „Það sýnir veruleikaskyn þess góða manns“

Birgir Olgeirsson skrifar
Össur Skarphéðinsson segir þetta ekki í fyrsta skiptið sem skotið er á hann í leiðara Morgunblaðsins en annar af ritstjórum þess er Davíð Oddsson.
Össur Skarphéðinsson segir þetta ekki í fyrsta skiptið sem skotið er á hann í leiðara Morgunblaðsins en annar af ritstjórum þess er Davíð Oddsson.
„Það er nú ekki í fyrsta skiptið,“ segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar borinn er undir hann leiðari Morgunblaðsins í dag þar sem leiðarahöfundur fer hörðum orðum um þingmanninn.

Þar er Össur sakaður um að hafa tekið þátt í að „plata“ aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu inn á þing og þjóð og kenningar hans sagðar fjarstæðukenndur pólitískur spuni. Þetta segir leiðarahöfundur vegna ummæla Össurar í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en þar sagði þingmaðurinn nýja tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, um að slíta viðræðum við Evrópusambandið, vera smjörklípu til að ná fylgi Framsóknarflokksins upp.

Þá sagði Össur þessi ummæli Sigmundar virka eins og rauð dula framan í evrópusinnaða sjálfstæðismenn og taldi líklegt að þetta útspil forsætisráðherrans muni verða til þess að flokkurinn Viðreisn, sem var stofnaður af evrópusinnuðum sjálfstæðismönnum, gulltryggi fall ríkisstjórnarinnar í næstu kosningum.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir þessa hugmynd forsætisráðherrans ekki nýja heldur hafi það alltaf verið stefna ríkisstjórnarinnar frá upphafi að afturkalla aðildarumsóknina og að málið hafi þegar verið lagt fyrir Alþingi þó það hafi ekki verið klárað þar. Þá segir leiðarahöfundur fámenna og veikburða hópa enn berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Össur segist í samtali við Vísi hafa lítið um þennan leiðara að segja nema eitt: „Það sem stendur upp úr þessum nýjársskrifum Davíðs Oddssonar er sú staðreynd að hann skilgreinir 82 prósent þjóðarinnar, sem var sá hópur sem vildi halda áfram umsókninni, sem fámennan hóp. Það er það eina nýja sem kemur fram þarna. Það sýnir veruleikaskyn þess góða manns,“ segir Össur um Davíð Oddsson sem ritstýrir Morgunblaðinu ásamt Haraldi Johannessen. 


Tengdar fréttir

Segir Sigmund beita smjörklípuaðferð

Össur Skarphéðinsson segir að ummæli forsætisráðherra í Sprengisandi virki eins og rauð dula framan í evrópusinnaða sjálfstæðismenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×