Enski boltinn

Henderson fékk mikið hrós frá bæði Neville og Carragher

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson tryggði Liverpool 1-0 sigur á Swansea City í gær en þessi enski miðjumaður hefur nú skorað í þremur deildarleikjum í röð. Frammistaða hans hefur hjálpað Liverpool mikið í baráttunni um Meistaradeildarsæti.  

Gary Neville og Jamie Carragher, knattspyrnuspekingarnir á Sky Sports, voru líka ánægðir með hann þegar þeir ræddu um leikinn í gær.

„Hann átti í erfiðleikum þegar hann kom fyrst til Liverpool og það var í umræðunni að hann færi til Fulham enda leit út fyrir að Brendan Rodgers væri tilbúinn að selja hann. Jordan vildi hinsvegar berjast fyrir sínu sæti í liðinu nú er hann einn af bestu leikmönnum liðsins," sagði Jamie Carragher.

„Hann er svona strákur sem allir stjórar vilja hafa í sínu liði. Hann er aldrei ánægður með sjálfan sig, vill alltaf bæta sig og með því að bæta sig svona mikið á undanförnum tveimur árum þá er hann orðinn einn af bestu miðjumönnum í Englandi," sagði Carragher.

„Hann er óhræddur við taka menn til hliðar og segja sína skoðun. Þess vegna er hann með fyrirliðabandið. Hann er einn af leiðtogunum í klefanum hjá Liverpool og það er eins hjá enska landsliðinu," sagði Gary Neville sem er líka aðstoðarþjálfari hjá enska landsliðinu og þekkir því vel til Henderson.

„Hann hugsar mikið um sinn leik og æfir mikið aukalega. Ég sá á síðasta ári mikla breytingu á honum hvað varðar það að æfa meira aukaspyrnur og föst leikatriði. Við sáum hann taka aukaspyrnur í dag þegar Steven Gerrard var á vellinum. Hver hefði getað séð það fyrir tveimur árum áður," sagði Neville.

Það er hægt að sjá sigurmarkið hjá Jordan Henderson hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×