Innlent

Fyrirtækin fljót að jafna sig á kreppunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Stærstu fyrirtækin á Íslandi virðst hafa verið fljót að jafna sig eftir efnahagshrunið og standa nú sögulega vel þótt þau sé enn mjög skuldsett, samkvæmt greiningu sérfræðings hjá Seðlabanka Íslands. Þetta skýrist meðal annars af því að töluvert af skuldum fyrirtækjanna hafa verið afskrifaðar á undanförnum árum.

Steinn Friðriksson, sérfræðingur á fjármálastöðugleikasviði Seðlabankans, kynnti greiningu sína á stöðu fimm hundruð veltumestu fyrirtækjum landsins frá árinu 1997 til ársins 2012 á málstofu í Seðlabankanum í dag.

Tekið skal fram að þegar rætt er um 500 veltumestu fyrirtækin þá er það sá hópur fyrirtækja hvert ár fyrir sig, sem þurfa ekki að vera í heildina sömu fyrirtækin milli ára. Þau voru skuldalega séð illa búinn undir fjármálahrunið árið 2008.

„Fjárhagslegt svigrúm til að auka við skuldir sínar fyrir fjármálaáfallið hafi verið nokkuð takmarkað eða lítið. Og staða fyrirtækjanna versnaði mjög mikið í fjármálaáfallinu,“ segir Steinn.

Sem kom fram í fjölgun fyrirtækja með neikvætt eigið fé enda hafi fyrirtækin verið mjög skuldsett allt frá árinu 1997 þangað sem greiningin nær aftur. Staða einstakra atvinnugreina er þó misjöfn þótt í heildina sé staða 500 veltumestu fyrirtækjanna mun betri árið 2012 en áður.

„Já, og voru árið 2012 komin í sögulega gott horf. Þannig að á fjórum árum virðist staða fyrirtækjanna orðin nokkuð góð í sögulegu samhengi,“ undirstrikar Steinn.

Þetta skýrist meðal annars af því að mikið hefur verið afskrifað af skuldum fyrirtækjanna og síðan geta þau fimm hundruð veltumestu árið 2012 verið heilbrigðari en þau sem fylltu þann hóp árin á undan.

„Auk þess hafa líka aðrir vísar um stöðu fyrirtækja, svo sem eins og gjaldþrot fyrirtækja og vanskil útlánasafna bankanna minkað mikið, á þessum síðustu tveimur árum (2011 og 2012). Þannig að það er mjög margt jákvætt sem hefur átt sér stað og ég er í raun spenntur að sjá tölur fyrir 2013 og 2014,“ segir Steinn Friðriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×