Enski boltinn

Mourinho: Höldum áfram að bjóða í Stones

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stones hefur leikið fjóra A-landsleiki fyrir England.
Stones hefur leikið fjóra A-landsleiki fyrir England. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, ætlar að halda áfram að reyna að kaupa varnarmanninn John Stones frá Everton.

Everton hafnaði 20 milljóna punda tilboði Chelsea í Stones en samkvæmt Mourinho eru ensku meistararnir ekki búnir að gefast upp á að kaupa þennan efnilega leikmann. Talið er að næsta tilboð muni hljóða upp á 28 milljónir punda.

„Félagaskiptaglugginn er opinn. Okkur er frjálst að bjóða í hann - markaðurinn lokar ekki fyrr en 1. september,“ sagði Mourinho sem ætlar ekki að hætta fyrr en Everton gefur það stýrt til kynna að leikmaðurinn sé ekki til sölu.

Roberto Martínez, knattspyrnustjóri Everton, hefur látið óánægju sína með umleitanir Chelsea í ljós en hann er staðráðinn að halda Stones hjá Bítlaborgarliðinu sem endaði í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Stones, sem er 21 árs, kom til Everton frá Barnsley í janúar 2013 og hefur síðan þá leikið 54 leiki fyrir félagið. Þá hefur Stones leikið fjóra A-landsleiki fyrir England auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×