Spurningalisti frá Umhverfisvaktinni vegna fyrirhugaðrar sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga var lagður fyrir síðasta fund stjórnar Faxaflóahafna sem fól Gísla hafnarstjóra að taka saman svör.
„Útstreymi koltvísýrings er áætlað um 100 til 800 tonn á ári sem mun vera svipað og frá meðalstóru mjólkurbúi á Íslandi með 35 kýr,“ segir í svari Gísla sem kveður mjólkurbú af þeirri stærðargráðu senda frá sér 500 tonn af koltvísýringi á ári.

Þá segir Gísli að Silicor Materials hafi skilað þeim gögnum og farið í gegnum þau ferli sem íslensk lög geri ráð fyrir. „Margvíslegar áhættugreiningar og áreiðanleikakannanir hafa verið unnar á framleiðsluferlinu og verkefninu sjálfu og er niðurstaða þeirra allra jákvæð, það er hvað varðar fjárfestingu, tækni og umhverfisáhrif, sem metin eru óveruleg.“
Umhverfisvaktin segir að nú þegar sé gríðarleg hávaða- og sjónmengun af verksmiðjum á Grundartanga. Tilkoma Silicor Materials muni gera hana langtum verri. „Ríkur vilji er til þess að mæta þeim atriðum sem lúta að hljóði og lýsingu með aðgerðum sem draga eins og kostur er úr áhrifum þessa á nágrennið,“ svarar Gísli.
Að sögn Umhverfisvaktarinnar er verið að breyta náttúruperlunni Hvalfirði í ruslakistu. Gísli segir að stefnt hafi verið að atvinnuuppbyggingu á Grundartanga í áratugi. Þar séu nú um eitt þúsund fastir starfsmenn. Umfangið leggi þær skyldur á herðar þeirra sem að málum koma að gæta að umhverfisáhrifum.
„Bygging verksmiðju Silicor er þar engin undantekning, en verksmiðjan mun framleiða hráefni í sólarhlöð sem munu á sinn hátt stuðla að nýtingu vistvænni orkugjafa en nú er notaðir víða um heim,“ segir í svörum hafnarstjórans.