Innlent

Leggja línur fyrir aðstoðarmenn

Hafsteinn Þór Hauksson lektor segir það vanda að lögregla rannsaki yfirmann sinn, innanríkisráðherra.
Hafsteinn Þór Hauksson lektor segir það vanda að lögregla rannsaki yfirmann sinn, innanríkisráðherra.
Hafsteinn Þór Hauksson, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands, telur að tilefni kunni að vera fyrir innanríkisráðherra til að leggja skýrar línur um störf aðstoðarmanna sinna.

Þetta kemur fram í minnisblaði Hafsteins Þórs til Ólafar Nordal innanríkisráðherra, en Ólöf bað Hafstein að rýna í álit umboðsmanns Alþingis um samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Hafsteinn segir að í ljósi tvíþætts hlutverks ráðherra við pólitíska stefnumótun annars vegar og sem handhafa stjórnsýslunnar hins vegar sé það ef til vill eðlilegast að ráðherra leggi þá línu að pólitískir aðstoðarmenn kalli ekki eftir gögnum frá undirstofnunum er varða mál sem eru til stjórnsýslulegrar meðferðar.

Hafsteinn Þór telur að því fylgi augljóslega vandi að lögregla rannsaki ráðherra, sem er æðsti yfirmaður lögreglunnar. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er fátt í minnisblaðinu sem kallar á sérstök viðbrögð frá Ólöfu. En minnisblaðið hefur verið sent til forsætisráðuneytisins sem innlegg í þá vinnu sem þar fer fram varðandi hlutverk aðstoðarmanna, siðareglur og formreglur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×