Innlent

Gera alvarlegar athugasemdir við framkvæmd Kópavogsbæjar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Bandalag háskólamanna gerir alvarlegar athugasemdir við þá framkvæmd Kópavogsbæjar að eyða kynbundnum launamun með því að lækka laun annars aðilans en þetta kemur fram í ályktun frá BHM.

Þar segir að kynbundnum launamun verði aldrei útrýmt með þeim hætti að jafna laun niður á við.

„Af sama tilefni ítrekar Bandalag háskólamanna þá afstöðu sína að menntun sé metin til launa og að launamunur sem byggir á starfsmati sé málefnalegur og þar með réttlætanlegur,“ segir í ályktun BHM.

Töluvert hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum hér á landi en til að mynda skaut Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, föstum skotum á Eygló Harðardóttur, félagsmálaráðherra, í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi.

Þá sagði hann að Eygló ætti hreinlega eftir að kynna sér betur launamál í Kópavogi eftir að hafa hlýtt á ummæli ráðherra á Alþingi í gær.

Eygló sagði Kópavogsbæ hafa farið gegn úrskurði kærunefndar jafnréttismála þegar sveitarfélagið lækkaði laun karlmanns sem hafði hærri laun en kona í sama starfi.

„Mér finnst þetta ansi stór orð. Það hefði verið í lófa lagið að hafa samband við okkur og fá okkar álitsgerðir. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert. Mitt fólk hefur legið yfir þessu,“ sagði Ármann um orð Eyglóar og benti á að kynbundinn óútskýrður launamunur sé minnstu í Kópavogi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×