Innlent

Efnahags- og viðskiptanefnd vill fella niður tolla á dömubindi og snakk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frosti Sigurjónsson er formaður Efnahags- og viðskiptanefndar.
Frosti Sigurjónsson er formaður Efnahags- og viðskiptanefndar. vísir/anton
Tollar á dömubindi, tíðatappar og snakk verða felldir niður um næstu áramót ef meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fær sínu framgengt.

Meirihlutinn leggur til í nefndaráliti sínu við fjárlög næsta árs að tollar á fjölmargar vörur verði felldir niður um næstkomandi áramót. Þar kemur einnig fram að um 72 prósent allra vörunúmera í Vínbúðunum muni lækka vegna skattabreytinga.

Álitið, sem birtist á vef Alþingis undir kvöld, byggir nefndin meðal annars á þeirri gagnrýni sem hefur borið á vegna skattlagningar ríkisins á dömubindi og tíðatappa.

Sjá einnig: „Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“

Þá gagnrýni segir meirihlutinn eiga rétt á sér – „og því er lagt til að tollar á vörur sem falla undir tollskrárnúmerið 9619.0012 verði 0% frá og með 1. janúar 2016.“ eins og það er orðað í nefndarálitinu.

Þá leggur meirihlutinn einnig til að tollar á snakk verði felldir niður en þeir hafa verið 59 prósent - sem nefndinni þykja „afar háa tolla.“„Í því samhengi var bent á að gert væri ráð fyrir að fella niður tolla á unnar landbúnaðarvörur samkvæmt nýlegum samningum Íslands og Evrópusambandsins á sviði tollamála. Af þeim sökum og þar sem þessar vörur falla almennt utan sviðs fríverslunarsamninga leggur meiri hlutinn til að tollar á vörum sem falla undir tollskrárnúmerið 2005.2003 verði 0% frá og með 1. janúar 2016.” 

Að sama skapi kemur fram í álitinu að með lækkun áfengisgjaldsins muni 1.943 vörunúmer af 2.668 hjá ÁTVR lækka í verði. Það gera um 72 prósent vörunúmera. Það má rekja til þess að áfengi var fært í lægra virðisaukaskattþrep, úr 24 prósentum niður í 11. Með því mun léttvín og kassavín hækka í verði en dýrara vín lækka, sem og sterkt vín.  Mesta verðhækkunin er tæp 8 prósent en mesta lækkunin er 13 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×