Innlent

Sigmundur kallar aðalskipulag borgarinnar græðgisvæðingu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigmundur ætlar ekki friða flugvöllinn en segist sannarlega ekki ganga í takt við stefnu borgarinnar.
Sigmundur ætlar ekki friða flugvöllinn en segist sannarlega ekki ganga í takt við stefnu borgarinnar. vísir/valli
„Maður ætti kannski að velta þessu fyrir sér, vissulega er Reykjavíkurflugvöllur stríðsminjar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í umræðum um fyrirspurn Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingkonu Bjartrar framtíðar, um hvort til standi að friða flugvöllinn í Vatnsmýri. 



Sigmundur sagðist ekki reikna með því að friða landsvæðið sem flugvöllurinn í Vatnsmýri er á, eða byggingar á flugvallarsvæðinu, nái breyting á lögum um menningarminjar fram að ganga á þessu þingi. „En ég skal hugleiða þetta í framhaldi af ábendingum háttvirts þingmanns,“ bætti hann svo við. 



Forsætisráðherrann sagðist heldur ekki sjá fyrir sér taka byggingar á svæðinu, eða flugvallarsvæðið í heild, eignarnámi. Benti hann á að stór hluti landsvæðisins væri nú þegar í eigu ríkisins. 



Heiða Kristín spurði ráðherrann einnig að því hvort hann gengi ekki í takt við stefnu og strauma sem Reykjavíkurborg fylgdi.



Sigmundur svaraði afdráttarlaust.



„Ég get svo sannarlega, virðulegur forseti, staðfest það að ég geng ekki í takt við þá stefnu sem borgin hefur innleitt,“ sagði hann og hélt áfram: „Menn hafa nú mikið notað orðið græðgisvæðing í íslenskri  þjóðmálaumræðu  varðar aðdraganda efnahagshrunsins og ég veit ekki hvað ég get kallað það annað en græðgisvæðingu þegar borgaryfirvöld reka stefnu sem að  beinlínis  ýtir undir  þenslu  í mjög afmörkuðu hluta borgarinnar, hér miðsvæðis. Ýtir undir það að hið gamla og smá víki og í staðin komi sem flestir og ódýrastir fermetrar þar sem loftið gengur kaupum og sölum fram og til baka og stöðugt er lagt ofan á það hærra og hærra gjald og vonast eftir fleiri og fleiri fermetrum þannig að á endanum er borgin í rauninni að útdeila gríðarlegum verðmætum, gríðarlegum verðmætum til þeirra sem eru reiðubúnir að ganga mest á byggðina sem fyrir er.“



„Það er stefna sem ég mun ekki ganga í takt við, virðulegur forseti, þannig að það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að árétta það hér eftir fyrirspurn háttvirts þingmanns,“ sagði forsætisráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×