Innlent

Jólapróf háskólanema í tvísýnu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Rúnar segir allt gert til að reyna að koma í veg fyrir verkfallið. Hann segir ljóst að verkfallið mun hafa mikil áhrif.
Rúnar segir allt gert til að reyna að koma í veg fyrir verkfallið. Hann segir ljóst að verkfallið mun hafa mikil áhrif. vísir/pjetur
Jólapróf háskólanema fara úr skorðum, verði af fyrirhuguðu verkfalli prófessora við ríkisháskóla í desember. Atkvæðagreiðslu þess efnis lýkur á morgun, en prófessorar hafa verið samningslausir frá því í lok febrúar.

„Viðræðurnar eru í gangi og menn eru að tala saman af alvöru til að reyna að ná samkomulagi, en það hefur ekki gengið, enn sem komið er,“ segir Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora.

Rúnar Vilhjálmsson.
Niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni munu liggja fyrir um hádegisbil á morgun. Rúnar telur nokkuð líklegt að félagsmenn samþykki verkfallsboðun. „Það verður auðvitað bara að koma í ljós. En ef marka má niðurstöðurnar frá því í fyrra, þegar farið var í atkvæðagreiðslu, þá voru niðurstöðurnar afgerandi. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að ætla annað en að það verði skýr niðurstaða úr þessari atkvæðagreiðslu,“ segir hann.

Í félaginu eru allir prófessorar við ríkisháskólana á Íslandi sem eru allir háskólar utan Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands. Verði af verkfallinu þýðir það að öll námskeið sem prófessorar hafa umsjón með frestast eða falla niður, sem er um helmingur allra prófa.

„Verkfallið mun augljóslega valda mikilli röskun en við vinnum að því að koma í veg fyrir að það fari svo. Niðurstaða háskólans síðast var sú að ekki væri forsenda til að vera með próf í sumum námskeiðum, þannig að það má ætla að niðurstaðan verði sú sama í ár,“ segir Rúnar, en háskólaprófessorar boðuðu til verkfalls á sama tíma í fyrra, en því var afstýrt á síðustu stundu þegar þeir undirrituðu skammtímasamning í lok febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×