Innlent

Rannsókn fjárkúgunarmálsins lokið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Málið verður sent ríkissaksóknara í vikunni.
Málið verður sent ríkissaksóknara í vikunni. Vísir
„Það eru allar líkur á því að það mál fari til ríkissaksóknara núna í þessari viku,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um tilraun til fjárkúgunar gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Rannsókn málsins er lokið.

Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru handteknar vegna málsins og mun ríkissaksóknari taka afstöðu til þess hvort ákæra verði gefin út á hendur þeim á næstu vikum. Málið hefur verið í rannsókn hjá lögreglunni síðan í sumar. 

Systurnar játuðu báðar aðild að málinu við yfirheyrslu hjá lögreglunni.

Málið hófst með því að bréf var sent á heimili forsætisráðherra þar sem var krafinn um átta milljónir króna ella yrðu upplýsingar sem í bréfum voru taldar viðkvæmar fyrir hann gerðar opinberar.

Hótunin fólst í því að tengja Sigmund Davíð við lánafyrirgreiðslu sem Vefpressan, fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hranfssonar, fékk frá MP banka. Vísir hefur áður greint frá því að fyrirtækið hafi fengið fékk sextíu milljóna króna yfirdrátt hjá bankanum.

Ekki eru til nein opinber gögn sem tengja ráðherrann við fjölmiðlaveldi Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda og eins aðaleigenda Pressunnar ehf., né umrædda lánveitingu til fyrirtækisins.

Sigmundur tilkynnti málið umsvifalaust til lögreglu sem réðist í umfangsmiklar aðgerðir sem leiddu til handtöku systranna. 

Rannsókn á annari meintri fjárkúgun, sem beindist gegn karlmanni sem kærði systurnar til lögreglu í kjölfar þess að Vísir greindi frá fjárkúgunartilrauninni gegn forsætisráðherra, er enn til rannsóknar.

Uppfært klukkan 13.02


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×