Innlent

Verkfalli afstýrt um miðja nótt

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Árni Stefán Jónsson.
Árni Stefán Jónsson.
SFR, SLFÍ og LL, þrjú fjölmennustu aðildarfélög BSRB, skrifuðu undir nýjan kjarasamning við ríkið aðfaranótt þriðjudags, eftir tveggja vikna samfellda samningalotu í skugga verkfalla. Með þessu var komist hjá allsherjarverkfalli SFR og SLFÍ sem átti að hefjast á miðnætti í gærkvöldi.

Samningurinn kveður á um launahækkanir á bilinu 29 til 32 prósent á næstu þremur árum, en lægstu taxtar hækka um 25 þúsund krónur. Þá taka félögin þátt í tilraunaverkefni sem miðar að því að stytta vinnuvikuna um fjórar klukkustundir, úr 40 stundum í 36.

„Við sem stóðum að þessum samningum erum mjög sátt við þessa niðurstöðu,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. „Þetta er alveg í anda þeirra markmiða sem við settum upp.“

Töf sem varð á að samningar næðust telur Árni Stefán að megi að hluta skrifa á þá vinnu sem fram fór í svonefndum SALEK-hópi um endurskipulag kjaraviðræðna. „En svo eru þetta bara flóknir kjarasamningar og tekur sinn tíma að ná þeim saman.“

Félögin kynna samningana sínu fólki á næstu dögum, en að því loknu fer fram um þá atkvæðagreiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×