Innlent

Ætlar þú að vaka í nótt? Vísir auglýsir eftir myndum af blóðmánanum

Bjarki Ármannsson skrifar
Þegar tunglið er inni í alskugga Jarðar fær það á sig blóðrauðan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki.
Þegar tunglið er inni í alskugga Jarðar fær það á sig blóðrauðan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki. Vísir/EPA
Almyrkvi verður á tungli í nótt og mun hann sjást að öllu leyti frá Íslandi, þar sem veður leyfir. Ekki þarf nein hjálpartæki til að sjá tunglmyrkva, svo allir ættu að geta notið hans með berum augum. Síðast sást almyrkvi frá öllu Íslandi fyrir um fimm árum síðan.

Spáð er heiðskýru veðri á Norðurlandi og Vesturlandi og ætti blóðrautt tunglið því að sjást nokkuð vel þaðan. Það gæti rofað til suðvestanlands og því ekki útilokað að íbúa höfuðborgarsvæðisins gæti beðið mögnuð sjón. Sömuleiðis er spáð léttskýjuðu veðri á Egilsstöðum. Vísir hvetur hér með lesendur til að senda inn myndir sínar af „blóðmánanum“ og verða þær bestu birtar á vefnum á morgun.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að myrkvinn muni hefjast klukkan 00:12, en að á milli 02:11 og 03:23 verði tunglið almyrkvað og þá blóðrautt á himni. Tunglmyrkvinn á sér stað á stærsta fulla tungli ársins, þegar tunglið er næst jörðinni, sem stundum er kallað „ofurmáni“.

Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni. Í þetta sinn sést hann best frá Norður-Ameríku og Evrópu, og að öllu leyti frá Íslandi.

Vísir tekur við myndum á póstfanginu ritstjorn@visir.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×