Innlent

Lögregla rannsakar dularfullu kattadauðana í Hveragerði

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lögregla hefur fengið tilkynningar um þrjá kattadauða en heimildir Vísis herma að allt að sex hafi drepist á síðustu dögum.
Lögregla hefur fengið tilkynningar um þrjá kattadauða en heimildir Vísis herma að allt að sex hafi drepist á síðustu dögum. Vísir/Getty

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú dauða þriggja katta í Hveragerði en grunur leikur á um að eitrað hafi verið fyrir dýrunum. Vísir greindi frá málinu í gær. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa sex kettir dáið á síðustu dögum en lögregla hefur eins og fyrr segir aðeins fengið tilkynningu um þrjá.

Í tveimur tilvikanna eru svipuð einkenni sem benda til eitrunar. Lögregla hefur nú uppi á kattahræum til að senda í rannsókn.

Að sögn Aðalsteins Magnússonar, eiganda eins kattarins sem dó, fannst blátt fiskflak nálægt húsi hans í gær. Lögregla staðfestir þetta í samtali við fréttastofu og segir til rannsóknar hvort það tengist dauða kattanna. Aðalsteinn sagði jafnframt að íbúar hefðu orðið varir við að fjöldi dauðra fugla hefði aukist upp á síðkastið en lögregla sagðist ekki hafa orðið vör við það. „Það eru getgátur og ekkert annað,“ sagði lögregla.

Sjá einnig: Grunur um að eitrað hafi verið fyrir köttum í Hveragerði

Því hefur verið velt upp hvort geti verið að einhver hafi vísvitandi eitrað fyrir dýrunum en þá telst það brot gegn dýraverndunarlögum.

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég er svo reiður og sár á sama tíma,“ segir Aðalsteinn. „Það er ekkert vitað hver var að verki eða hvað honum gekk til. Annað hvort er hér í bænum einhver virkilega veikur einstaklingur sem er að leika sér að því að drepa dýr eða hann hefur dreift þessu á þök til að drepa máva og þaðan hefur þetta dottið á jörðina. Hvort sem það er þá er þetta ekki gáfulegt,“ sagði Aðalsteinn í samtali við Vísi í gær.

Uppfært 12.23:
Lögregla vinnur að rannsókninni í samstarfi við Matvælastofnun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.