Enski boltinn

Óvissa um framtíð Dzeko hjá Manchester City

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Dzeko hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu hjá Manchester City.
Dzeko hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu hjá Manchester City. Vísir/getty
Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, staðfesti í dag að ástæðan fyrir því að Edin Dzeko hefur ekki leikið mínútu með félaginu í fyrstu tveimur æfingarleikjunum er vegna óvissunar sem ríkir um framtíð hans hjá félaginu.

Manchester City hefur leikið tvo æfingarleiki gegn Melbourne City og Roma í æfingarferð sinni um Ástralíu og haft betur í þeim báðum. Þrátt fyrir að hvorki Sergio Agüero né Wilfried Bony hafi ferðast með liðinu í ferðina hafa hvorki Stevan Jovetic né Edin Dzeko leikið eina einustu mínútu.

Dzeko hefur verið orðaður við Roma undanfarnar vikur en honum hefur aldrei tekist að festa sig í sessi í byrjunarliði Manchester City. Var hann aðeins 11 sinnum í byrjunarliði Manchester City á nýafstöðnu tímabili og skoraði hann fjögur mörk.

„Edin fékk engar mínútur í síðasta leik og það er ástæða fyrir því, það er ekki víst hvort hann sé á förum frá félaginu eða ekki. Hann mun halda áfram að æfa með liðsfélögum sínum og svo sjáum við hvað setur,“ sagði Pellegrini.

Manchester City leikur þriðja leik sinn á undirbúningstímabilinu á morgun er liðið tekur á móti Real Madrid í Melbourne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×