Innlent

Segir anda Hrunsins svífa yfir vötnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ómar Ragnarsson gefur ekki mikið fyrir hugmyndir um byggingu nýju höfuðstöðvanna en tillaga að þessu útliti var sett fram árið 2007.
Ómar Ragnarsson gefur ekki mikið fyrir hugmyndir um byggingu nýju höfuðstöðvanna en tillaga að þessu útliti var sett fram árið 2007. Mynd/Landsbankinn
„Hefur eitthvað breyst frá árinu 2007? Hefur eitthvað lagast? Eða er andi Hrunsins aftur kominn á kreik?“ eru spurningar sem leituðu á sjónvarpsmanninn Ómar Ragnarsson eftir að tilkynnt var um að Landbankinn hygðist reisa nýja höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík.

Greint var frá áætlununum nú á fimmtudag en talið er að kostnaður við byggingu nýja hússins sé um átta milljarðar króna.

Lengi hefur staðið til að reisa nýju höfuðstöðvarnar en umræðan um hina nýju byggingu var hávær á árunum fyrir efnahagshrunið árið 2008.

Ómar segir umræðuna þá svipa um margt til þeirra áforma sem nú eru uppi. Þá var sagt að reisa skyldi „ þvílíka risabyggingu Landsbankans á mest áberandi staðnum í gamla miðbænum, að aðrar byggingar yrðu eins og dúfnakofar í samanburðinum,“ segir Ómar.  

„Fólk tók andköf af hrifningu við á horfa á myndir af þessum stærsta gullkálfi í sögu norrænna þjóða, sem dansað skyldi í kringum.

Átta árum síðar virðist sem byrja eigi að grafa þennan gullkálf upp úr gröf sinni og núna fyrir fé almennings,“ segir hann ennfremur en Landsbankinn er í 97.9% eigu íslenska ríkisins.

Greint hefur verið frá því að Landsbankinn hafi hafnað ódýrari lóðum fyrir þá sem varð fyrir valinu, við hliðina á Hörpu, og segir Ómar ótækt að bruðlað skuli með þessum hætti með almannfé.

„Á sínum tíma var okkur sagt að skrímslið mikla yrði kostað af einkafé ofurmenna á fjármálasviðinu. En núna er bankinn að hálfu í eigu almennings og menn depla ekki auga þótt spreða eigi almannafé í nýtt bruðl,“ segir Ómar.

„Hefur eitthvað breyst frá árinu 2007? Hefur eitthvað lagast? Eða er andi Hrunsins aftur kominn á kreik?“ 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×