Fótbolti

Messi íhugar að hætta með landsliðinu | Afi sagði að hann væri latur

Lionel Messi þurfti enn og aftur að bíta í það súra epli að verða af titli með landsliði Argentínu.
Lionel Messi þurfti enn og aftur að bíta í það súra epli að verða af titli með landsliði Argentínu. vísir/getty
Lucas Biglia, leikmaður Lazio og argentínska landsliðsins, segir að Lionel Messi hafi verið algjörlega eyðilagður eftir tap Argentínu gegn Chile í úrlitum Suður-Ameríkukeppninnar í síðasta mánuði.

Einu verðlaunin sem Messi hefur unnið með argentínska landsliðinu eru gullverðlaun á Ólympíuleikunum árið 2008.

Messi hefur verið mikið gagnrýndur fyrir rýra uppskeru með landsliðinu á sama tíma og hann hefur unnið allt sem hægt er með félagsliði sínu, Barcelona. Sá síðasti til að gagnrýna hann var afi hans, Antonio Cuccitini, sem sagði að Messi hafi verið latur í síðustu leikjum.

"Hann [Messi] var slakur í síðustu þremur leikjum. Hann var latur," sagði afi gamli eftir úrslitaleikinn gegn Chile.

Argentína hefði með sigri getað unnið sinn fyrsta titil í 20 ár en sú varð ekki raunin og Biglia segir að það hafi vegið þungt á herðum Messi eftir úrslitaleikinn.

"Messi var alveg eyðilagður. Ég hef aldrei séð annað eins. Hann var alveg í rúst," sagði Biglia, en í Argentínu gengur sú saga að Messi vilji taka sér hlé frá landsliðinu.

"Við munum styðja hann ef hann ákveður það. En við munum ekki leyfa honum að hætta fyrir fullt og allt," sagði Lucas Biglia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×